Framlög til samgöngumála verða aukin á næsta ári
Aukin framlög verða til samgöngumála á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár sem fjármálaráðherra kynnti í dag.
Í nýjum fjárlögum fyrir árið 2018 kemur fram að framlag til framkvæmda og viðhalds í vegakerfinu muni hækka um 1.388 milljónir frá gildandi fjárlögum. Framlagið nemur um 19,1 milljarði króna og er stefnt að því að ríflega 8 milljarðar af því fari til viðhalds vega.
Lagt er til að á árinu 2018 verði framlög til nýframkvæmda á vegum hækkuð um 1,5 milljarða króna umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar í september sl. þar sem framlög til vega voru skert miðað við árið í ár. Þetta viðbótarfé til vegamála á að renna til sjö framkvæmda með áherslu á umferðaröryggi, greiðari umferð og minni tafir.
Leggja á bundið slitlag á síðasta kafla vegarins yfir Fróðárheiði og tvöfalda brýr við Kvíá og við Vatnsnesveg um Tjarnará. Greiða á úr umferðartöfum með þremur framkvæmdum við Reykjanesbraut um Hafnarfjörð og með gerð hringtorgs við Esjumela á Vesturlandsvegi. Verja á 600 milljónum króna vegna framkvæmdanna við Reykjanesbraut og 200 milljónum vegna hringtorgs á Vesturlandsvegi. Framlög til framkvæmda við Dýrafjarðargöng verða aukin um 2 milljarða króna.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður rúmum 36 milljörðum króna varið til samgöngumála. Framlagið hækkar um tæpa 2,5 milljarða frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum
Afsláttur á virðisaukaskatti vegna vistvænna bíla er framlengdur til þriggja ára. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í bílaframleiðslu og varðandi áherslur á umhverfisvænar lausnir. Fjármálaráðherra sagði að hugsa þyrfti til framtíðar. Vonin sé að framleiðslukostnaður umhverfisvænna bíla minnki en það hafi ekki gengið eftir jafn hratt og menn hafi vonað. Undanþága á virðisaukaskatti fyrir vistvæna bíla er talið að muni kosta um tvö milljarða.
Kolefnisgjald verður hækkað um 50% og mun hækka á næstu árum í takt við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Fallið er frá fyrri áformum um tekjuöflun samhliða jöfnun olíugjalds við bensíngjald og hægt verður á afnámi ívilnunar vörugjalds af bílaleigubílum.