Framtíð Peugeot tryggð
Dongfeng Motor Group Co Ltd, næst stærsta bílafyrirtækið í Kína, og PSA Peugeot Citroen ganga í dag frá samningi um að endurfjármagna Peugeot. Samningurinn, markar endalok yfirráða Peugeot fjölskyldunnar á hinu rúmlega tveggja alda gamla fyrirtæki. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Samkvæmt frétt Reuters leggja Dongfeng og franska ríkið strax hvort um sig 800 milljón evrur inn í Peugeot og eignast hvort um sig 14 prósenta hlut í PSA (Peugeut-Citroen).
Peugeot gengst jafnframt þessu fyrir hlutafjárútboði meðal núverandi hluthafa sinna upp á allt að þremur milljörðum evra. Með þessu hvorutveggja er stefnt að því að ná inn í PSA amk. 4,1 milljarði evra.
Með þessum aðgerðum ætti framtíð Peugeot að vera tryggð, ekki síst þegar sjö milljarða evra ríkisábyrgð fellur úr gildi á næsta ári. Bráð hætta þóttir vera á því að við missi ríkisábyrgðarinnar yrðu dagar Peugeot fljótt taldir.
Peugeot varð til árið 1819 og framleiddi í fyrstunni ýmisleg verkfæri og áhöld, meðal annars kaffikvarnir og reiðhjól. Bílaframleiðsla Peugeot hófst strax árið 1891 eða 22 árum fyrr en hjá Henry Ford í Michigan. Fyrirtækið hefur lifað af tvær heimsstyrjaldir og hefur lengstum verið mikið stórveldi í bílaframleiðslu en liðið mikið tap síðustu árin.
Peugeot eignaðist Citroen að fullu árið 1975. Samstarf við Kínverja um framleiðslu Peugeot bíla í Kína hófst 1985. Peugeot bílar eru nú framleiddir í Frakklandi, Tékklandi, Japan, Kína, Argentínnu, Brasilíu, Slóvakíu, Spáni, Indónesíu, Austurríki, Rússlandi, Hollandi, Tyrklandi, Portúgal, Ítalíu og Íran.