Framtíð samgangna - hvernig verður hún?
Ferry Smith stjórnarformaður EuroRAP hélt mjög athyglisvert erindi um öryggisrýni vega á ráðstefnunnin Bílar, fólk og framtíðin í Hörpu 17. nóvember sl. Hann skýrði tilurð og tilgang Euro RAP og Euro NCAP (öryggismat nýrra bíla). Bæði þessi verkefni urðu upphaflega til hjá alþjóðasamtökum bifreiðaeigenda, FIA, og er tilgangur þeirra að draga sem mest úr dauða og meiðslum í umferðinni í heiminum með því að bæta farartæki, umferðarmannvirki og síðast en ekki síst viðhorfum almennings, stjórnvalda og fjölmiðla til öryggismála.
Greint er frá ráðstefnunni í nýjasta fréttabréfi FIA og aðkomu lykilaðila í FIA að henni. Auk Ferry Smith flutti Aled Williams framkvæmdastjóri Euro NCAP erindi. Þá má ennfremur nefna erindi Andreas Egense vegamálastjóra Danmerkur, Hreins Haraldssonar vegamálastjóra Íslands, Ólafs Kr. Guðmundssonar stjórnarmanns í FÍB og margra fleiri. Fyrirlesarar fjölluðu allir að meira eða minna leyti um þær tæknibreytingar sem eru að verða í samgöngum og sjálfakandi bifreiðar sem nú eru í sjónmáli. Ljóst þykir að þessi tækni muni kalla á stórfelldar breytingar í samgöngum, í bifreiðaeign og eignarhaldi bifreiða, í tryggingamálum og á lögum sem að þessu lúta. Í upphafi ávörpuðu ráðstefnuna um tölvusamband þau Jean Todt forseti FIA og sérlegur fulltrúi SÞ í umferðaröryggismálum og Michelle Yeoh sendiherra umferðaröryggismála hjá FIA og SÞ, en síðan tóku fyrirlesarar við einn af öðrum.
Ferry Smith stjórnarformaður EuroRAP byrjaði erindi sitt á því að skýra meginástæðu þess að FIA hóf að láta að sér kveða í slysavörnum og öryggismálum og stofnaði til Euro NCAP öryggisprófana á nýjum bílum og Euro RAP vegrýninnar sem nú hefur hvorttveggja breiðst út um allan heiminn. Segja má að í því samhengi séu lykilorðin samviska og samkennd. Hann hafði síðan ekki mörg fleiri orð um það en sýndi viðstöddum stuttmynd hins heimsfræga kvikmyndagerðarmanns Luc Besson sem Besson gerði fyrir FIA til að vekja athygli á mikilvægi öruggra umferðarmannvirkja. Þessi kvikmynd hefur vafalítið veitt áhorfendum skýra sýn á vandann sem við er að fást og að það er hægt að bæta margt. Hér má sjá þessa áhrifamiklu mynd.