Framtíðar-Prius
Toyota(Prius) 1/X
Toyota sýnir alls átta nýja hugmyndabíla á bílasýningunni í Tokyo sem hefst eftir tvær vikur. Ein þeirra er frumgerð nýs og minni Prius tvinnbíls sem verður tengilstvinnbíll. Bíllinn er mjög léttur, um hálfum metra styttri en núverandi Prius en samt ámóta rúmgóður hið innra.
Þessi nýi Prius hefur vinnuheitið 1/X (alls ekki víst að Prius verði hið endanlega nafn bílsins ef af framleiðslu hans verður) er byggður þannig að allur vélbúnaðurinn í honum sem og rafgeymar eru undir aftursætinu. Hægt er að hlaða geymana með því að stinga bílnum í samband við rafmagnstengil. Yfirbyggingin er úr mjög léttum efnum til að halda heildarþyngdinni sem mest í skefjum. Viðbragð hans og vinnsla er sagt svipað og í núverandi Prius en bensíneyðslan einungis helmingur þess sem Prius eyðir og þyngdin einungis þriðjungur af þyngd Prius eða einungis 420 kíló.
Bensínmótorinn er einungis 500 rúmsm að rúmtaki og eins og í Prius vinnur hann með rafmótor/rafal og saman knýja þeir afturhjólin.