Framtíðarbílarnir eru raf- og tengiltvinnbílar

http://www.fib.is/myndir/Tesla-Roadster.jpg
Tesla Roadster er hreinn rafbíll.

Náttúruverndarsamtökin WWF (World Wildlife Fund) hafa látið rannsaka mögulega bílakosti framtíðarinnar. Niðurstaðan er m.a. sú að eigi ekki illa að fara fyrir mannkyninu í loftslagsmálum verði almenningur þegar í stað að hætta að nota bensín- og dísilknúna bíla og snúa sér hið skjótasta að rafbílum og tengiltvinnbílum í ríkum mæli.

Rannsóknaskýrslan sem nefnist Plugged In eða Tengdur slær því föstu að öld olíunnar sé á síðustu dögum. Rafknúnir bílar nýti orkuna miklu betur og gefi frá sér miklu minna af koltvísýringi og öðrum skaðlegum lofttegundum en bensín- og dísilbílar, jafnvel þótt rafmagnið til að knýja bílana áfram sé búið til með því að brenna jarðefnaeldsneyti – olíu eða kolum.

Í skýrslunni er því slegið föstu að hreinir rafbílar séu framtíðarfarartæki almennings en þeim til viðbótar verði tengiltvinnbílar með brunahreyflum sem brenni lífrænu eldsneyti fyrir þá sem þurfa á langdrægari bílum að halda. Því er einnig slegið föstu að ýmsar umfangsmiklar tilraunir til að framleiða hverskonar annað eldsneyti og orkugjafa yrir bíla séu fullkomlega tilgangslausar og sóun á tíma, fé og fyrirhöfn.

Ein þessara tilrauna er að vinna fljótandi bílaeldsneyti úr kolum. Samkvæmt skýrslunni er það bæði dýrt, mjög orkufrekt og mjög mengandi. Sömu einkunn fær eldsneytisvinnsla úr olíusandi sem víða er að finna í miklum mæli. Skýrslan segir að mengun frá þeirri vinnslu sé þrefalt meiri en frá venjulegum olíuhreinsistöðvum.

Engin framtíð í vetninu
Ekki fá vetnisknúnir bílar heldur háa einkunn í skýrslunni. Séu þeir bornir saman við rafbíla þá eru þeir síðarnefndu þrefalt nýtnari á orkuna auk þess sem engin þörf er á því að byggja upp rándýrt orkudreifikerfi fyrir þá eins og nauðsynlegt sé að gera fyrir vetnisbílana. Raforkudreifikerfin eru þegar til og hafa verið lengi.

- Bílar framtíðarinnar þurfa nauðsynlega að verða miklu nýtnari á orkuna en bílar nútímans. Þeir hljóta að verða rafknúnir, þeir þurfa að verða mun léttari og með minni loftmótstöðu, segir Dr. Gary Kendall höfundur skýrslunnar. Fjölmiðlafulltrúi sambands evrópskra bílaframleiðenda, ACEA segir við EurActiv – upplýsingaþjónustu Evrópusambandsins – að
bílaframleiðendur hafi undanfarin ár lagt sig verulega eftir því að byggja orkunýtnari bíla og draga úr CO2 útblæstri frá þeim. Vandinn sé bara sá að það sé undir neytendum komið hvort þeir nái útbreiðslu. Rolf Stromberger stjórnar þeirri deild ACEA sem fæst við umhverfismál og –tækni segir við EurActiv að keppikeflið sé að þróa tækni sem dragi ekki úr notagildi og þægindum bílanna og hækki heldur ekki verðið á þeim.

Viðfangsefnið sé það að búa til rafhlöður sem séu bæði minni og mun léttari en hefðbundnir blýrafgeymar. Vinnuhringur rafbíla þurfi að vera samkeppnisfær við bensín- og dísilbílana. Þetta sé í sjónmáli en þó séu ýmis tæknileg atriði enn ekki að fullu leyst. Hann bendir líka á að þótt rafmótorar nýti orkuna betur en brunahreyflar sé ekki hægt að draga almennar ályktanir um hagkvæmni rafbílanna út frá því einu. Sjálf bílgerðin skipti þar máli sem og hvernig raforkan er framleidd. „Það sem skiptir máli fyrir umhverfið er það hvernig heildar-mengunardæmið lítur út, frá raforkuverinu til bílhjólanna,“ segir Stromberger.