Framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð
„Nýrri Orkustefnu fylgir skýr framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð. Það eru dýrmæt og mikilvæg tímamót að þverpólitísk sátt hafi náðst um framtíðarsýn, leiðarljós og tólf meginmarkmið Íslands í orkumálum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Ráðherra kynnti fyrir helginalangtíma orkustefnu fyrir Ísland, þá fyrstu sem unnin er með þessum hætti, undir yfirskriftinni „Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð.“
Með Orkustefnu er stefnt að því að gæta hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða. Sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.
Þverpólitísk sátt og samráð
Orkustefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Einhugur var um niðurstöðuna.
Gætt var að því að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila og almennings. Kallað var eftir hugmyndum frá almenningi, hagsmunaaðilum og félagasamtökum með opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda og umsagnaraðilar fengu tækifæri til að kynna hugmyndir sínar fyrir starfshópnum.
„Það var lykilatriði að marka þessa stefnu með breiðri samstöðu og samráði,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Þegar við skoðum meginmarkmiðin tólf sjáum við að við eigum mörg óunnin verkefni. Þar liggja gríðarleg sóknarfæri. Stefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál en hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um þegar við setjumst niður í einlægum vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar. Ég vil þakka starfshópnum, starfsmönnum hans og öllum öðrum sem unnu að stefnunni fyrir að leggja þann metnað og alúð í þetta verkefni sem afurðin endurspeglar. Næstu skref eru að setja fram árangursvísa og aðgerðir sem byggja á markmiðum stefnunnar, en fjöldi verkefna sem styðja við stefnuna er þegar kominn vel á veg,“ segir Þórdís Kolbrún.
Framtíðarsýn og markmið
Stefnan felur í sér skýra framtíðarsýn og tólf meginmarkmið.
Framtíðarsýnin kveður m.a. á um að öll orkuframleiðsla sé af endurnýjanlegum uppruna. Orkan sé nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf sé mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma, Ísland sé leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu og orkuskiptum og sátt ríki um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda.
Markmiðin eru eftirtalin (ekki í mikilvægisröð):
• Orkuþörf samfélags er ávallt uppfyllt
• Innviðir eru traustir og áfallaþolnir
• Orkukerfið er fjölbreyttara
• Ísland er óháð jarðefnaeldsneyti; orkuskipti eru á landi, á hafi og í lofti
• Orkunýtni er bætt og sóun lágmörkuð
• Auðlindastraumar eru fjölnýttir
• Gætt er að náttúruvernd við orkunýtingu
• Umhverfisáhrif eru lágmörkuð
• Nýting orkuauðlinda er sjálfbær
• Þjóðin nýtur ávinnings af orkuauðlindunum
• Orkumarkaður er virkur og samkeppnishæfur
• Jafnt aðgengi að orku er um allt landið