Framtíðin í Mirai
Dómnefnd danskra bílablaðamanna sem velur bíl ársins heiðraði Toyota sérstaklega fyrir vetnisrafbílinn Toyota Mirai við athöfn í Kaupmannahöfn þar sem tilkynnt var um bíl ársins í Danmörku 2016.
Toyota Mirai er fyrsti fjöldaframleiddi vetnisrafbíllinn. Hann er búinn efnarafal sem breytir vetni í rafstraum sem svo knýr bílinn. Mirai er hannaður frá grunni sem vetnisrafbíll og fæst nú keyptur í Danmörku hjá söluaðilum Toyota eins og hver annar venjulegur bíll og virkar að öllu leyti sem slíkur. Toyota Mirai var í frumvali á þeim bílum sem til greina komu sem verða bíll ársins í Danmörku en náði ekki að komast í lokavalið. En engu að síður töldu þeir sem valnefndina skipa, að í þessum bíl mætti að nokkru sjá framtíðina og fyrir það ætti framleiðandinn heiður skilið.
Auk Mirai voru tilnefndir þrír aðrir bílar til þessara sérstöku heiðursverðlauna. Þeir voru Mazda MX-5 fyrir akstursgleði, Volvo XC90 fyrir framúrskarandi öryggi og Tesla S fyrir stjálfstýribúnað.