Framtíðin óviss hjá norskum rafbíl
Fjárhagsáhyggjur hrjá nú norska rafbílaframleiðandann Think því að rafhlöðuframleiðandinn Ener1 hefur dregið sig út úr Think og vill selja þriðjungshlut sinn sem upphaflega var metinn er á 8,8 milljarða ísl. kr. Think er því án samstarfsaðila um líþíumrafhlöður fyrir rafbíla sína, aðallega borgarbílinn Think City sem framleiddur hefur verið frá árinu 2008.
Norðmennirnir sitja eftir með sárt ennið og leita nú með logandi ljósi að nýjum fjárfestum, gjarnan rafgeymaframleiðanda sem tilbúinn er til samstarfs, því hvað er rafbíll án rafgeyma?
Fagblaðið Automotive News veltir fyrir sér framtíð Think og spyr talsmann Ener1 um ástæðu fyrir samvinnuslitunum nú. Talsmaðurinn segir að forsvarsmenn hans fyrirtækis hafi komist á þá skoðun að markaðurinn fyrir litla rafbíla muni ekki vaxa jafn hratt og menn héldu árið 2008 þegar samstarfið við Think hófst. Áhuginn sé meiri fyrir meðalstórum og stórum rafknúnum fólksbílum og að þróun rafgeyma fyrir þá hyggist menn nú stefna.
Sumir bílamarkaðsfræðingar hafa efasemdir um að Think eigi sér langt líf fyrir höndum. Bílarnir séu litlir, aðeins tveggja manna, þeir dragi aðeins 160 kílómetra við bestu aðstæður, komist einungis á 110 km hraða og séu allt of dýrir - kosti við verksmiðjudyr tæpar 7,5 milljónir ísl. kr. Til samanburðar þá sé drægi Nissan Leaf svipað en Nissaninn sem er fimm manna bíll, komist á 140 km hraða og kostar tæpar 5,6 millj. ísl. kr.
Byrjað var að byggja hina norsku Think bíla fyrir árið 2000. Ford lagði mikla fjármuni í framleiðsluna en dró sig út úr samstarfinu árið 2003. Bílarnir eru einkum skrúfaðir saman hjá Valmet í Finnlandi en á síðasta ári var opnuð ný verksmiðja í Elkhart í Indiana í USA. Eftirspurn eftir Think rafbílum hefur verið minni en gert var ráð fyrir og framtíð Think er enn einu sinni afar tvísýn.