Framúrakstur bannaður í Mosfellsdal
Vegagerðin hófst í gær handa við að mála heila línu á þeim kafla Þingvallavegar sem liggur um Mosfellsdal. Víghóll, íbúasamtök Mosfellsdals, fagna þessu framtaki. Þar með verður framúrakstur bannaður á kafla í Mosfellsdalnum þar sem fjöldi afleggjara liggur að veginum.
Fyrr í vikunni gáfu samtökin út yfirlýsingu þess efnis að ef ekki yrði málað á næstu dögum væru íbúar tilbúnir með málningarfötur og tækju málin í eigin hendur. Banaslys varð á vegkaflanum sl. laugardag og ákvað Vegagerðin í kjölfarið að banna framúrakstur.
Vegagerðin ákvað að bregðast strax við með þessum hætti. Vegagerðin hefur verið unnið að deiliskipulagi ásamt sveitarstjórn þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur hringtorgum á veginum. Í þá vinnu verður þó líklegast ekki farið fyrr en á næsta ári. Deiliskipulagið er enn í auglýsingu.