Framúrakstursbann á trukkana
15.04.2005
Þessi gæti þurft 4 km til að taka fram úr öðrum samskonar.
Þann 1. september nk. gengur í gildi frekara bann við því að vörubílar taki fram úr öðrum vörubílum á dönskum hraðbrautum. Eins og nú háttar er slíkur framúrakstur bannaður á hraðbrautaköflum sem samtals eru 100 km að lengd en eftir breytinguna verða þeir samtals 215 km. Fleming Hansen samgönguráðherra Dana útilokar ekki að þessum vegaköflum verði fjölgað enn meir. Hann segist í samtali við Jyllands Posten í morgun vera sjálfur ansi þreyttur á því að læsast langtímum saman aftan við trukk sem er að silast fram úr öðrum sem ekur næstum því jafn hratt og sá sem er að taka framúr.
Jyllands Posten hefur reiknað það út að það tekur vörubíl sem ekur á 89 km hraða tæpar þrjár mínútur að silast fram fyrir annan trukk sem ekur á 88 km hraða. Slíkur framúrakstur fari fram á rúmlega fjögurra kílómetra vegalengd og bílstjórinn sem tekur framúr er einungis 46 sekúndum fljótari á áfangastað miðað við 100 kílómetra vegalengd.
Bo Christian Koch upplýsingafulltrúi FDM, systurfélags FÍB í Danmörku fagnar þessu aukna framúrakstursbanni á vörubílana og telur að gjarnan megi fjölga vegarköflunum enn meir. „En það er um leið mikilvægt að koma vörubílstjórum í skilning um að þessi framúrakstur er nánast gagnslaus fyrir þá,“ segir hann við Jyllands Posten í morgun.