Franskt þjóðarstolt verður fyrir áfalli

http://www.fib.is/myndir/Subaru-ImpWRX-STi-2006.jpg
Subaru Impreza WRX.

Til þessa hafa þjófar sem stolið hafa bílum sem komast hraðar en 190 getað verið nokkuð öruggir um að geta hrist lögregluna af sér. En það geta þeir brátt ekki lengur því að sá hluti frönsku lögreglunnar sem vaktar helstu hraðbrautir landsins er nú að leggja bílunum sem þeir hafa ekið á hingað til og fá sér aðra, mun aflmeiri og hraðskreiðari.

Hingað til hefur hraðbrautalögreglan franska ekið á Renault Megane Coupé og Peugeot 306 S16 – bílum sem komast í 190 km hraða en nú hafa verið pantaðir 63 Subaru Impreza WRX og þeir komast á yfir 240 km hraða.
Franska lögreglan hefur hingað til þótt vera mjög fastheldin á það að aka einungis í frönskum bílum en í síðasta útboði tókst frönsku framleiðendunum ekki að uppfylla kröfur lögreglunnar um afl og hraða bíla í þeim stærðarflokki sem um ræðir, var tilboði Subaru tekið.

Alls munu 156 sérþjálfaðir lögreglumenn í akstri aka bílunum. Þeir þurfa m.a. að sækja sérstök námskeið í hraðakstri sem fara fram á kappakstursbrautinni frægu í Le Mans. Lögreglumennirnir tilheyra lögreglusveit sem heitir BRI. Hlutverk hennar er að bregðast við og elta uppi meinta sakamenn sem brotið hafa umferðareglur freklega og/eða eru á villtum flótta undan réttvísinni og fara mikinn.

Á síðasta ári fór BRI lögreglusveitin í 53.000 útköll til að elta uppi ökumenn sem hundsað höfðu skipun annarra lögreglumanna um að stöðva. Í 11.300 þessara tilfella óku flóttaökumennirnir meir en 50 km yfir leyfðum hámarkshraða.

Nýju Subaru bílarnir eru með tveggja lítra 225 hestafla túbínubensínvélar, sex gíra handskiptingu og fjórhjóladrifi. Hámarkshraðinn er uppgefinn 242 km á klst.