Freelander án fjórhjóladrifs
Nýjasta gerð Land Rover Freelander jepplingsins nefnist Freelander 2 eD4. Hann er óvenjulegur jepplingur að því leyti að hann verður einungis framhjóladrifinn. En þar með er hann léttari og eyðir því minna eldsneyti auk þess að vera talsvert ódýrari en fjórhjóladrifinn Freelander sem auðvitað mun áfram.
Frá og með árgerð 2011 sem nú er að koma á markað hafa orðið smávægilegar útlitsbreytingar. Auk þess hefur 2,2 lítra dísilvélin verið endurbætt með þeim árangri að hún nýtir eldsneytið betur og gefur minna CO2 frá sér, eða aðeins 158 g/km.
Hin ný endurbætta 2,2 lítra dísilvél er nú 150 hö og vinnsla hennar er 20 Nm meiri en áður, eða 420 Nm. Framhjóladrifna gerðin Freelander 2 eD4 eyðir samkvæmt samræmdri Evrópumælingu 6 l á hundraðið í blönduðum akstri. Bíllinn fæst bæði hand- og sjálfskiptur en handskipta útgáfan er með sjálfvirkum ádrepara/ræsingu og er það staðalbúnaður.
Dísilvélin fæst líka í 190 hestafla útfærslu en með henni fæst einungis sjálfskipting. Freelander fæst svo ennfremur með 3,2 lítra sex strokka, 233 ha bensínvél. Allar þrjár vélargerðirnar uppfylla nú Euro5 mengunarstaðalinn.
Eftir því sem dísilvélar í fólksbílum hafa orðið svo algengar og svo hljóðlátar og þýðgengar sem þær eru orðnar yfirleitt, er það orðið alltof algengt að fólk dælir bensíni á þá í misgripum fyrir dísilolíu. Slík mistök geta leitt til alvarlegra skemmda á vélum og innsprautunarkerfum og gríðarlegs viðgerðakostnaðar. Land Rover hefur því, til að koma í veg fyrir slík mistök, komið fyrir búnaði á áfyllingarstútnum fyrir eldsneytisgeyminn sem gerir það ómögulegt að dæla bensíni á dísilbílana. Búnaðinn kalla Land Rover menn Diesel misfueling device.