Fresta gjaldtöku á bílastæðum á flugvöllunum
Stjórnendur og stjórn Isavia Innanlandsflugvalla hafa ákveðið að fresta gjaldtöku á bílastæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum þar til síðar á þessu ári. Jafnframt á að skoða þær efnislegu ábendingar sem hafa komið fram varðandi fyrirkomulag gjaldskrár.
Eftir samtal bæði við nærsamfélagið á Akureyri og Egilsstöðum og einnig við fulltrúa Innviðaráðuneytisins hefur verið samþykkt að hraða möguleikanum á því að hefja gjaldtöku á bílastæðunum við Reykjavíkurflugvöll þannig að hún geti hafist næsta vor.
Því verður beðið með gjaldtöku á bílastæðunum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli þar til á vordögum og innleiða gjaldtökuna á sama tíma á flugvöllunum þremur.
Stefnt er að því að fara í gjaldtökuna í Reykjavík þó enn sé framtíð flugstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli óráðin. Búnaður verður settur upp sem mun virka með sama hætti og sá sem verður rekinn á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.