Frönskum bílagerðum fækkað
204 ára yfirráðum Peugeot fjölskyldunnar yfir fyrirtækinu PSA í Frakklandi (Peugeot/Citroen) lauk fyrir skemmstu með því að kínverski bílaframleiðandinn Dongfeng og franska ríkið keyptu hvort um sig 14 prósent í móðurfélaginu. Ný stjórn og nýr forstjóri eru nú tekin við og byrjuð að takast á við langvarandi taprekstur undanfarinna ára, m.a. með því að fækka bílagerðum í framleiðslu um helming og þá aðallega þeim gerðum sem minnstum arði skila. Ekki hefur þó enn komið fram hvaða gerðir þetta verða sem höggnar verða frá.
Þessi niðurskurður fjölbreytninnar í bílaframleiðslunni á fyrst og fremst við um Evrópu. Með því að hætta framleiðslu á 26 af 45 þeirra bílagerða sem minnstum arði skila og líklega loka einni eða fleiri samsetningarverksmiðjum í Frakklandi mun skapast meira svigrúm á hinum risastóra og vaxandi bílamarkaði í Kína í framleiðslu á þeim gerðum sem best ganga þar og víðar í Asíu. Í Kína er þannig ætlun nýrra stjórnenda að reisa nýja bílaverksmiðju og rannsókna- og þróunarsetur fyrir nýjar bílagerðir og nýja tækni.
Sú nýtækni sem þar er ætlunin að þróa áfram og fullkomna er tvíorkutækni sem byggir á dísil- eða bensínvélum og samanþjöppuðu lofti. Í stað rafmótora og rafgeyma koma lofpressur og loftkútar sem hægt er að pumpa í á bensínstöðvum og hvar sem er. Þegar svo hemlað er endurvinnst hemlunarorkan og umbreytist í loft sem fer inn á þrýstigeyma og nýtist síðan til að knýja bílinn áfram. Loftið getur nýst til þess eitt og sér eða sem viðbótarafl við brunahreyfilinn. Þessi loftbúnaður var þróaður af Guy Négre, frönskum vélaverkfræðingi sem fyrr á árum tengdist Formúlukappakstri og hönnun Formúlubíla. Hann reyndi um skeið að koma loftbílum sínum í framleiðslu en hefur síðan selt hugmyndir sínar og þekkingu m.a. til PSA og Tata í Indlandi.
Þótt ekkert hafi verið gefið upp um það hvaða gerðir verði fyrir niðurskurðarhnífnum þá er talið að það verði einkum minnstu Citroen og Peugeot bílarnir og margar ýmsar sérgerðir eins og blæjubílar Af ódýru smábílunum er hagnaður framleiðenda yfirleitt lang minnstur. Sé þetta tilfellið er líklegt að dagar smábílanna Peugeot 108 og Citroen C1 verði senn taldir og að núverandi kynslóð þessara bíla verði sú síðasta. Loks telja franskir bílablaðamenn sig hafa heimildir fyrir því að gerðarheitiið DS hjá Citroen verði brátt gert að sérstakri tegund í Evrópu en það er það þegar orðið í Kína. (Sjá myndina). DS deildin fái eigin stjórn og DS bílarnir verði hreinræktaðir lúxusbílar.