Frumleikinn enn til staðar hjá Citroën
Citroën C-Métisse. Hugmyndarbíll sem ekki verður fjöldaframleiddur - byggður til að prófa nýja tækni og útlit.
Alþjóðlega bílasýningin í París sem opnuð verður í lok mánaðarins er mikill vettvangur franskra bílaframleiðenda sem sýna þar gjarnan hugmyndabíla og frumgerðir nýrra bíla sem sumir hverjir verða að veruleika en aðrir ekki eins og gengur. Sýningin í París er haldin annað hvert ár þegar ártal endar á jafnri tölu en í Frankfurt í Þýskalandi þegar ártal endar á oddatölu.
Á sama hátt og þýsku bílaverksmiðjurnar leggja líf og sál í Frankfurtsýninguna leggja þeir frönsku líf sitt og sál í Parísarsýninguna. Í síðustu viku sögðum við frá frumgerð lúxussportbíls frá Renault sem sýndur verður í París. En ekki ætlar PSA (Peugeot/ Citroën) heldur að sitja hjá og Citroën sem alla tíð hefur verið í fararbroddi bílaframleiðenda í frumleika í tækni og útliti sýnir frumgerð sérstæðs bíls sem nefnist C-Métisse.. Sá vagn er ekki bara sérstæður í útliti heldur einnig tæknilega því hér er kominn tvinnbíll. Aðalvélin er V6 dísilvél en rafmótorar eru við afturhjólin þannig að bíllinn er fjórhjóladrifinn og mjög viðbragðssnöggur - veður í hundraðið á 6 sekúndum.
Ekki mun ætlunin að setja Citroën C-Métisse í fjöldaframleiðslu heldur er bíllinn byggður til að sýna Parísarbúum og sýningargestum að frumleiki og tæknileg kunnátta er enn til staðar hjá Citroën – Parísarfyrirtækinu sem á sínum tíma skóp tímamótabíla eins og Citroën 2cv braggann, Citroën Traction Avant og Citroën DS.