Frumvarp sem opnar á starfsemi á borð við Uber og Lyft
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur sem hefur það að markmiði að „tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi,“ eins og segir í frumvarpinu. Frumvarpið er ekki síst tilkomið vegna þess að litið er svo á að núgildandi reglur séu ekki í fullu samræmi við EES-samninginn. Með frumvarpinu er meðal annars opnað á starfsemi fyrirtækja á borð við Uber og Lyft. Þetta kemur fram í umfjöllun á mbl.is um málið.
Fallið frá skilyrðum um fjöldatakmarkanir
Í greinargerð með því kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi árið 2017 hafið frumkvæðisathugun á leigubílamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. Eftir samskipti ráðuneytisins við ESA hafi mátt ráða að stofnunin teldi „líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti. ESA hafði þá þegar gert athugasemdir við aðgangshindranir að leigubifreiðamarkaðnum í Noregi þar sem löggjöfin er um margt svipuð þeirri íslensku.“ Fram kemur að ESA hafi gefið út rökstutt álit um leigubifreiðalöggjöfina í Noregi og að slíkt sé undanfari dómsmáls fyrir EFTA-dómstólnum bregðist samningsríki ekki við álitinu.
Í framhaldi af þessu var ráðist í vinnu við nýtt frumvarp um leigubifreiðaakstur hér á landi. Fram kemur í greinargerðinni að ekki hafi farið fram heildarmat á eftirspurn á markaði þrátt fyrir þróun samfélagsins og að fjöldi atvinnuleyfa hafi verið svipaður í um aldarfjórðung. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að falla frá skilyrðum um fjöldatakmarkanir leigubifreiða.
Umfjöllunina í heild sinni á mbl.is má nálgast hér.