Frumvarp til laga um lækkun skatta á eldsneyti
Í dag var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um lækkun bensíngjalds og olíugjalds. Í greinargerð segir að með þessu frumvarpi sé lagt til að bensín- og olíulítrinn lækki tímabundið um 5 kr. Lögð er til 4 kr. tímabundin lækkun á almennu vörugjaldi af bensíni þannig að það lækki úr 9,28 kr. í 5,28 kr. Auk þess er lögð til sama lækkun á olíugjaldinu þannig að það lækki úr 41 kr. í 37 kr., en olíugjaldið var lækkað tímabundið 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 úr 45 kr. í 41 kr. Í greinargerð segir einnig að tilgangur breytinganna sé að vega upp á móti þeirri miklu verðhækkun sem orðið hefur á eldsneyti á heimsmarkaði. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður frumvarpsins.
Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur verið óvenju hátt á þessu ári. Verð á bifreiðaeldsneyti á Íslandi er hið hæsta í Evrópu. Meginástæða þess er sú að hér á landi leggur ríkið þungar álögur á eldsneyti. Um 60% af útsöluverði bensíns og dísilolíu eru skattar í ríkissjóð.
FÍB gaf nú í haust bifreiðaeigendum kost á því að rita nöfn sín á áskorun til stjórnvalda um að lækka álögur á bifreiðaeldsneyti. Um 15 þúsund skrifuðu undir. Stjórnvöld hafa ekki komið til móts við þessa áskorun enn þá en nú er lag að koma til móts við vilja neytenda.
FÍB fagnar nýju frumvarpi til laga um lækkun skatta á eldsneyti og heitir á hið háa Alþingi að lækka álögur ríkisins á bifreiðaeigendur með lögum.