Frumvarp til samgönguáætlunar

The image “http://www.fib.is/myndir/R%F6gnvaldurJ%F3nsson.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur.

Alþingi hefur samþykkt vegaáætlun fyrir næstu fjögur árin en frumvarp um samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018 var frestað. Frumvarpið er um margt merkilegt plagg og má ýmislegt lesa út úr því.  Hér á eftir hef ég tekið saman þau atriði sem ég tel að skipti mestu máli fyrir vegfarendur og greini frá því hvað má lesa út úr þeim markmiðum sem eru í samgönguáætluninni.

a)   

a. Grunnnetið byggt upp samkvæmt forgangsröðum framkvæmda. Grundvöllur áætlunar um nýbyggingarframkvæmdir á grunnnetinu er að svokallaðar flutningabrautir (sé enga skýringu á því hvað er flutningabraut) verði í forgang með fjármagn og að þær fullnægi eftirfarandi:

a) Fullt burðarþol
b) Breidd verði nægjanleg (Ekki skýrt út hvað nægjanleg breidd er en það  hlýtur að vera breidd samkvæmt vegstöðlum Vegagerðarinnar)
c) Vegir lagðir bundnu slitlagi (ekki greint frá hvort um malbik eða klæðingu er að ræða en  það skiptir verulegu máli og mun ég fjalla um það síðar)
d) Þjóna sem best atvinnulífinu.
e) Stuðla að bættu umferðaröryggi
Í áætluninni er svo greint frá hversu mikið fjarmagn verði notað til einstakra nýbyggingaframkvæmda

b)   

Ia Vegir utan höfuðborgarsvæðisins með ÁDU um það bil 1000 bílar á dag eða meira. Þetta þýðir að á hringvegi út frá höfuðborgarsvæðinu að Landeyjarvegi (að vegi að flugvelli til Vestmannaeyjar) í austri og að Norðausturvegi (vegur niður Kinn) í norðri á að gera eftirfarandi:

a.    Vegir styrktir upp í fullt burðarþol, engar þungatakmarkanir
b.    Allar einbreiðar brýr breikkaðar
c.    Breidd vega verði minnst 8.5 m
d.    Á umferðarþyngstu vegunum verði byggðir 2+1 vegir eða 2+2 vegir (hér er ekki hægt að sjá hvaða vegarkaflar verði byggðir á þennan hátt en geta má þess að samkvæmt vegstöðlum vegagerðarinnar þá skal ekki byggja 2+2 vegi nema á höfuðborgarsvæðinu. Skýring mín)
e.    Gatnamót verði lagfærð og þeim fækkað

c)   

Á hringvegi að undanskildum köflum samkvæmt lið b) og á vegum að stærstu þéttbýlisstöðum skal gera eftirfarandi: (ég get ekki séð skilgreiningu á stærstu þéttbýlisstöðunum en leiða má að því líkur að hér sé um að ræða, Akranes, Ólafsvík, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Ísafjörður/Bolungarvík, Sauðárkrókur, Siglufjörður (um Eyjafjörð), Húsavík, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Höfn, Eyrarbakki, Þorlákshöfn og bæir á Reykjanesi).

a.    Lagðir bundnu slitlagi
b.    Allir nýir vegir hafi fullt burðarþol
c.    Allir nýir vegir séu byggðir í minnst 7.5 m breidd
d.    Lokið verði að mestu breikkun einbreiðra brúa á hringveginum og á öðrum vegum þar sem umferð er meiri en 250 bílar á dag. (Erfitt er að átta sig á hvað er átt við með orðalaginu að mestu en ég tel að um sé að ræða að 10 – 20 % einbreiðra brúa verði einbreiðar í lok áætlunartímabilsins. Umferð er minni en 250 bílar á Vestfjarðarvegi frá Sælingsdalslaug til Patreksfjarðar og á Djúpvegi til Súðavíkur og til Vopnafjarðar).

d)   

Varðandi þjónustu á vegakerfinu er eftirfarandi áætlað að gera:

a.    Aukin vetrarþjónusta og gerð verði sérstök áætlun um aukna hálkuvörn (Í áætluninni er ekki greint frá  hvað verður gert)
b.    Vegir í grunnneti opnaðir alla daga vikunnar að vetrinum (Þetta er að mestu staðfesting á þeirri þjónustu sem nú er innt af höndum)


Hér virðist vera að þó nokkrum spurningum sé ósvarað í þessari samgönguáætlun .
Gerð er ágætlega grein fyrir því hvaða nýframkvæmdir verði gerðar á áætlunartímabilinu en þegar því sleppir er ekki hægt að sjá hvaða áætlanir eru um eftirfarandi atriði sem skipta vegfarendur miklu máli en það er:

a)    Hvernig bæta á umferðaröryggi
b)    Áætlun um styrkingu vegakerfisins
c)    Áætlun um aukningu á þjónustu að vetri til


Ekki eru fjárveitingar sérstaklega merktar fyrir þessi verkefni nema að nokkur aukning er til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu sem dugar skammt ef á að gera einhverjar marktækar aðgerðir í þá veru.Það sem skiptir höfuðmáli hvað varðar bætt umferðaröryggi er breikkun vega, bætt umhverfi vega eða uppsetning vegriða og aðskilnaður umferðar á umferðarmestu vegunum.

Í samgönguáætluninni er að finna áætlanir um aðskilnað umferðar á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu en engar almennar áætlanir eru um breikkun vega, bætt umhverfi vega eða uppsetning á leiðurum. Þetta er vægast sagt undarlegt þegar haft er í huga að flest bana- og alvarleg slys verða þegar ekið er framan á bíl og við útafakstur.
Engar fjárveitingar eru til styrkingar vegakerfisins fyrir utan það sem finna má í fjárveitingum til viðhalds vega. Gera má ráð fyrir því að þær fjárveitingar nægi varla til að halda núverandi burð vegakerfisins í sama horfi þannig að varla er hægt að búast við aukning á burðarþoli verði meiri en sem svarar þeim nýbyggingum sem gerðar verða á áætlunartímabilinu. Þetta er mjög alvarlegur hlutur fyrir landsbyggðina og þungaflutningana. Það má því búast við því að þungatakmarkanir  verði við líði í næstu framtíð.

Árið 1994 gerðu Norðmenn úttekt á vegakerfinu í þeim tilgangi að skoða hvort fella mætti þungatakmarkanir niður. Þeirra niðurstaða var sú að vegakerfið væri ekki í stakk búið til að bera þann þunga en væri tekið tillit til heildarhagsmuna þá mundi það borga sig að hætta þungatakmörkunum og vegagerðin yrði að halda við vegakerfinu þó að kostnaður mundi aukast við það. Því var það ákveðið að leyfa fullan þunga allt árið og hefur það gilt frá árinu 1994 en við erum enn þá með takmarkanir til mikils kostnaðarauka fyrir þjóðfélagið.

Í samgönguáætluninni eru markmið um greiða umferð og mikið bætt umferðaröryggi. Þegar litið er til þessara tveggja markmiða þá skyldi maður ætla að þess sæjust merki í aukningu fjárveitinga til vetrarþjónustu. Að vísu er um aukningu að ræða en ekki nægilegt til að gera neitt merkjanlegt átak. Aðal samgönguæðarnar eru ekki hálkuvarðar sem skapar hættu fyrir umferðina og erfiðleika og þá sérstaklega fyrir þungaflutningana. Hér hefði þurft að gera verulegt átak.

Þegar litið er til þessarar samgönguáætlunar þá eru harkmiðin háleit. Eins og í fyrri áætlunum eru aðaláherslur á nýbyggingar. Þetta virðist koma til vegna þess að ráðherra og þingmenn leggja mesta áherslu á það sem er mest sýnilegt en það eru nýbyggingarframkvæmdir sem kjósendur taka eftir. Þess vegna líður vegakerfið fyrir þetta sjónarmið og framþróun á heildarvegakerfinu verður takmörkuð. Ekki trúi ég því að þetta sé stefna Vegagerðarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á að bæta núverandi vegakerfi. Þess vegna er nauðsynlegt að Vegagerðin birti tillögu að samgönguáætlun án íhlutunar ráðherra eins og gert er bæði í Noregi og Svíþjóð og ég hef gert grein fyrir í annarri grein.
Rögnvaldur Jónsson.