Furðulegar skýringar N1 vegna oftöku á bensínsköttum
Í kjölfar lækkunar olíufélaganna á bensíni vegna oftekinna gjalda og skatta kom fram á heimasíðu N1 að félagið hefði innheimt um það bil 9 milljónir króna í bensínskatt á 10 dögum frá 29. maí til 8. júní. Þessa fjármuni sagðist félagið hafa ákveðið að „gefa“ til góðra málefna.
Þessar 9 milljónir vöktu athygli því samkvæmt ársreikningi Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara fyrir árið 2008 var markaðshlutdeild N1 í bensínsölu 32,4%. Meðalsala á bensíni var um 574 þúsund lítrar á dag. Ef dagssalan er margfölduð með 10 dögum og 12,5 krónum þá er niðurstaðan um 71, 8 milljónir króna sem ofteknar voru af bensínkaupendum. Út frá þessum tölum ætti N1 að skila til viðskiptavina sinna a.m.k. 23 milljónum króna. Þessar tölur miða við meðalsölu árs en á þeim tíma sem oftakan átti sér stað var hvítasunnuhelgi sem er ein stærsta ferðahelgi ársins.
Morgunblaðið var með frétt um þessa misvísun hjá N1 í fyrradag. Í Morgunblaðinu í dag var Hermann Guðmundsson forstjóri N1 spurður um það hvers vegna fyrirtækið hafi aðeins ætlað að greiða 9 milljónir króna til góðgerðarmála vegna oftekinna bensínskatta? Hermann svaraði: „Við erum auðvitað einnig með tugþúsundir af reikningshafandi viðskiptavinum og þeir hafa engan reikning fengið ennþá. Við erum að vinna í því núna að bakfæra og leiðrétta það. Þess vegna var upphæðin ekki hærri – það eru svo margir sem eru með reikning hjá okkur og greiða því eftir á. Það verður lagfært. Aðeins 9 milljónir voru innheimtar á mánudaginn. Það er prinsippmál að það verði ekki ein króna af ofteknum gjöldum eftir hjá félaginu.“
Þessi eftir á skýring er furðuleg. Hversvegna reiknaði N1 ekki með öllum ofteknu sköttunum fyrr en eftir að Morgunblaðið vakti athyli á þessari misvísun? Á heimasíðu N1 þann 9. júní þá var ekkert fjallað 14 til 16 milljónirnar sem ofteknar voru af reikningsviðskiptavinum en aðeins sagt að N1 hefði ákveðið að gefa á annarra kostnað 9 milljónir króna til góðgerðarmála!
Við skulum vona að svona uppákoma hendi ekki aftur.