Fyrirhugaðar eldsneytishækkanir auka útgjöld heimilanna umtalsvert
Fyrirhugaðar skattahækkanir á eldsneyti í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar hafa verið í umræðunni síðustu daga í fjölmiðlum. Ef þessar hækkanir verða að veruleika mun útsöluverð á bensínlítra hækka í 214.30 krónur og verð á dísillítra fara í 218.85 krónur. Þetta kemur fram í útreikningum sem FÍB vann fyrir Morgunblaðið fyrr í þessari viku. Verðið miðast við sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð hjá N1 og Olís.
Ef þessar hækkanir myndu ganga eftir er ljóst að bifreiðaeigendur myndu finna verulega fyrr þeim og þá ekki síst fólk á landsbyggðinni sem oft þarf að sækja þjónustu sem þykir sjálfsögð á höfuðborgarsvæðinu um langan veg. Hækkunin færi svo að sjálfsögðu beint inn í verðlag og verðtryggð lán landsmanna myndu hækka í kjölfarið.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sagði í samtali við Morgunblaðið að þessar fyrirhuguðu hækkanir myndu auka útgjöld heimilanna í landinu umtalsvert. Fyrir fjölskyldu sem rekur dísilbíl sem ekið er 20 þúsund km á ári og eyðir að meðaltali 8 lítrum á hverja hundrað km gætu útgjöld vegna eldsneytiskaupa aukist um 35.200 krónur á næsta ári.
Fleiri gjaldaliðir hækka
Í umfjöllun Morgunblaðsins kom fram að olíuverð hefur hækkað undanfarið. Auknar álögur á eldsneyti leiða að óbreyttu til þess að útsöluverð á bensíni og dísil án afsláttar verður vel á þriðja hundrað krónur. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 mun kolefnisgjald á bensín og dísilolíu tvöfaldast í 11 krónur annars vegar og 12,6 krónur hins vegar. Fleiri gjaldaliðir hækka, auk þess sem virðisaukaskattur á bensín og dísilolíu hækkar enda er virðisaukaskattur lagður á endanlegt verð vörunnar.
Þess má geta að bensínið hjá Costco var selt á lægsta meðalverði í júlí og kostaði þá 164,9 krónur lítrinn. Það kostar nú 176,9 krónur en verði skattar á bensínlítrann hækkaðir eins og ráðgert er um 8,73 krónur um áramótin fer verðið hjá Costco að óbreyttu í 185,63 krónur. Það er 12,6% hærra en að jafnaði í júlí sl. Fyrstu dagana í þessari viku kostaði dísillítrinn 167,9 krónur hjá Costco en mun kosta 190,5 krónur eftir skattahækkun upp á 22,6 krónur. Það yrði 13,4% hækkun á rúmum mánuði.