Fyrirtaks ökumenn
Sænska hjólbarðakeðjan Vianor hefur látið kanna hversu góða ökumenn Svíar telja sig vera. Niðurstaðan er sú að fjórir af hverjum fimm aðspurðra telja sig vera í betra meðallagi sem ökumenn, og þaðan af betri (sem auðvitað fær ekki staðist). Þá er sjálfsálit níu prósent aðspurðra ökumanna svo bólgið að þeir telja sig frábæra og meðal þeirra bestu í heiminum.
Ef algerlega væri að marka svörin frá þeim rúmlega þúsund sem svöruðukönnuninni, þá mætti draga þá ályktun að mjög sjaldgæft sé að fólk tali í farsíma í akstri og stýri þá með annari hendi og stýri með hnjánum meðan skipt er um gír. Slíkt geri bara „hinir“ og góðu ökumennirnir geri allt sem rétt er undir stýri og eru þessvegna betri en meðaltalið. Þessvegna sé umferðin jafn örugg og hún er. En raunveruleikinn er því miður ekki alveg svona.
Einungis þrjú prósent svarenda sögðu akstursgetu sína vera undir meðaltalinu. 46 prósent flokkuðu ökuhæfni sína í fjórða gæðaflokk af fimm og níu prósent sögðust vera í fimmta og hæsta gæðaflokki sem ökumenn og jafnvel betri en það, því í raun væru þeir í hópi þeirra allra bestu á heimsvísu.
Könnunin sýnir að þeir sem yfirleitt aka bílum að staðaldri hafa afar háar hugmyndir um ökuhæfileika sína og getu. Við vitum ekki til þess að svipuð könnun hafi verið gerð hér á landi en líklegt má telja að útkoman yrði ekki mjög ólík.
Ökuhæfni sænskra ökumanna að eigin mati
1 Stórhættulegur (0 %)
2 Varasamur (3 %)
3 Í verra meðallagi (29 %)
4 Í betra meðallagi (46 %)
5 Frábær (9 %)
Ek ekki bíl (12 %)
Veit ekki (1 %)