Fyrsta banaslysið í ísl. umferð var reiðhjólaslys
Þann 25. ágúst sl. voru 100 ár frá fyrsta banaslysinu sem varð í umferð á Íslandi. Málsatvik voru þau að 9 ára drengur; Guðmundur Ólafsson kom hlaupandi úr Veltusundinu inn á Austurstræti og í veg fyrir reiðhjól sem kom aðvífandi. Bæði drengurinn og hjólreiðamaðurinn féllu í götuna við áreksturinn en drengurinn fékk mikið höfuðhögg við fallið sem dró hann til dauða síðar um kvöldið.
Fyrsta banaslysið í umferðinni þar sem bíll kom við sögu varð svo rétt tæpum fjórum árum síðar eða þann 29, júní 1919. Þá varð 66 ára gömul fótgangandi kona fyrir bíl í Bankastræti. Framhjól bílsins fóru yfir konuna sem slasaðist mikið og lést hún af völdum meiðsla sinna daginn eftir.
Þetta hvorttveggja kemur fram í rannsókn Óla H. Þórðarsonar fyrrv. framkvæmdastjóra Umferðarráðs sem undanfarin ár hefur unnið að því að taka saman sögu umferðarslysa frá uphafi bílaaldar á Íslandi til og með 2014.
Í banaslysaskrá Óla H. Þórðarsonar kemur líka fram að tvö dauðaslys hafa orðið á Íslandi þar sem járnbrautarleist kemur við sögu. Járnbrautin lá ofan úr Öskjuhlíð niður að Reykjavíkurhöfn. Eftir henni ók eimreiðin sem nú stendur til sýnis á Miðbakka/Geirsgötu móts við tollstöðvarhúsið í Reykjavík. Eimreiðin dró eftir sér vagna sem fluttu grjót úr grjótnámu í Öskjuhlíð sem notað var í hafnargarða og hafnarbakka Reykjavíkurhafnar.
Fyrra járnbrautarslysið varð 22. ágúst 1916 á Skúlagötu framan við hús nr. 22. Fimm ára stúlka, Guðlaug Eiríksdóttir sem átti heima í Bjarnabörg varð fyrir lestinni og lét lífið. Seinna banaslysið varð 7. ágúst 1919 á Snorrabrautinni (sem þá kallaðist Hringbraut) skammt norðan Hverfisgötu. Þar varð tveggja ára stúlka, Guðrún Aðalheiður Elíasdóttir Barónstíg 12 fyrir lestinni og lét líf sitt.