Fyrsta fjölorkustöð landsins tekin í notkun
Bensínstöð Orkunnar norðan við Miklubraut breytist í dag í fyrstu fjölorkustöð landsins þar sem ökumenn og aðrir notendur munu, auk hefðbundins jarðefnaeldsneytis, geta keypt nær alla endurnýjanlega orkugjafa sem framleiddir eru til samgangna í landinu. Um sögulegan atburð var að ræða í orkusögu landsins því þetta var í fyrsta skipti sem slíkt er gert á einni og sömu áfyllingarstöðinni.
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flutti ávarp við þetta tækifæri og tók stöðina formlega í notkun með því að fylla á þrjá vistvæna bíla með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.
Metangasið kemur frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi, hraðhleðsla fyrir rafmagns- og tengitvinnbíla frá Orku náttúrunnar og þá verður hægt að fá vetni frá Orku náttúrunnar sem framleitt er með rafgreiningu í Hellisheiðarvirkjun.
Fjölorkustöðin við Miklubraut er samstarfsverkefni sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og er styrkt af Evrópusambandinu um tvær milljónir evra. Verkefnisstjórn og þróun hefur verið í höndum Íslenskrar NýOrku en stöðin verður rekin og er í eigu Skeljungs hf.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku, sagði við opnunina það einstakt að fá að taka þátt í opnun stöðvar sem býður alla vistvæna kosti á Íslandi.
,,Orkan er að taka risaskref í samfélagslegri ábyrgð og ég er sannfærður um að þessa dags verður minnst í orkusögu þjóðarinnar. Nú er mikilvægt að fyrirtæki og opinberir aðilar fylgi fordæmi Orkunnar og setji sér markmið að kaupa aðeins bíla sem nota vistvænt eldsneyti þannig að eftirspurn aukist og hægt verði að byggja upp enn frekari innviði,“ sagði Jón Björn.
Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, sagði tíma breytinga í samgöngum sem í felast bæði tækifæri og áskoranir. Við höfum mótað okkur skýra stefnu og ætlum að vera leiðandi í þeim breytingum, vinna þær í sátt við samfélagið og með opnun fjölorkustöðvarinnar á Miklubraut sýnum við það í verki. Orkan sem orkufélag framtíðarinnar fagnar því þessum áfanga í sögu félagsins.