Fyrsta íslenska EuroRAP skýrslan er komin út
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.
Forkönnunarskýrsla eða fyrsta skýrsla EuroRAP vegrýni á Íslandi var kynnt fréttamönnum í gær. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fylgdi skýrslunni úr hlaði. Hann lýsti aðdraganda þess að vegrýni undir merkjum EuroRAP hófst á Íslandi og sagði að þessi frumskýrsla staðfesti að það hefði verið rétt og skynsamlegt að ganga til samstarfs við FÍB um vegrýni á Íslandi undir merkjum EuroRAP. „Ástæðan fyrir því er að ég taldi mikilvægt að fá FÍB inn í þetta er að við megum ekki sleppa neinu tækifæri sem við kunnum að hafa til að fá hin bestu ráð um endurbætur á umferðarmannvirkjum okkar,“ sagði ráðherrann.
EuroRAP vegrýni er alþjóðaverkefni sem stofnað var til af alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga, FIA. Vegir, og mannvirki þeim tengd sem og umhverfi vega er metið út frá öryggissjónarmiðum. Að baki þessu mati liggja staðlaðar forsendur og matsaðferðir og úrvinnsla gagna er sömuleiðis stöðluð. Bifreiðaeigendafélög í hverju landi fyrir sig hafa einkarétt á EuroRAP starfseminni enda eiga þau í sameiningu EuroRAP stofnunina sjálfa og öll einkaleyfi henni tengd. EuroRAP er hér á landi nákvæmlega eins og annarsstaðar í heiminum unnið í náinni samvinnu við samgönguyfirvöld og veghaldara og alla þá aðra sem stuðla vilja að því að umferð verði eins örugg og verða má. Hér á landi er EuroRAP unnið í samstarfi FÍB, samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu. Bílaumboðið Askja, Goodyear, Landflutningar-Samskip, Lýsing, Olíufélagið hf og VÍS leggja verkefninu dýrmætt lið með því að leggja því til Mercedes Benz bifreið og kosta rekstur hennar.
Ólafur Kr. Guðmundsson verkefnisstjóri EuroRAP á Íslandi tv. og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.
Þeir vegir sem skoðaðir voru í þessum fyrsta áfanga EuroRAP á Íslandi eru þjóðvegur 1 frá Reykjavík um Hellisheiði, Suðurland austur að Landvegamótum. Í öðru lagi var skoðaður Vesturlandsvegur frá Reykjavík að Borgarnesi og í þriðja lagi Reykjanesbraut frá Reykjavík að Leifsstöð við Keflavíkurflugvöll. Helstu niðurstöður eru þær að flestir nýjustu hlutar þessara vega reyndust ágætir eða stefna í aðverða það þegar framkvæmdum lýkur. Ýmsir eldri hlutarnir eru einnig góðir en á köflum eru ýmsir hættuþættir eins og hátt fall af vegi, skurðir, stórgrýti, staurar o.fl. við veginn sem draga öryggiseinkunnina niður. Þá eru allvíða krökkt varasamra vegamóta inn á fjölfarnar aðalleiðir sem draga öryggiseinkunnina sömuleiðis niður. Þá eru vegrið við hættulega vegarkafla, eins og t.d. við brýr oft of stutt þannig að ef óhapp verður, verja þau ekki vegfarendur sem skyldi.
Þessi fyrsta skýrsla EuroRAP verður fljótlega aðgengileg til skoðunar hér á vef FÍB og þar og víðar verða framtíðarskýrslur og niðurstöður einnig birtar. Meginhugmyndin er sú að vegfarendur geti kynnt sér áhættuþætti vega og hagað ökulagi sínu um þá í samræmi við það og að veghaldarar geti brugðist við og lagfært áhættuþætti. Markmiðið er fimm stjörnu ökumenn í fimm stjörnu bílum á fimm stjörnu vegum.