Fyrsta sendingin af Xpeng G3 rafbílnum til Noregs
Fyrsta sendingin af kínverska rafbílnum Xpeng G3 til Noregs fór í skip í Kína í vikunni. Um tímamót var að ræða en Noregur er fyrsti markaður bílsins utan Kína. Að sögn Espen Strømme framkvæmdastjóra norska innflutningsfyrirtækisins, Zero Emission Mobility, er mikill áhugi á bílnum í Noregi.
Kínverski framleiðandinn er mjög bjartsýnn á sölu bílsins í Noregi en fjöldaframleiðsla á bílnum hófst 2018. Bíllinn hefur reynst mjög vel til þessa og fengið mjög góða dóma en drægni hans er yfir 500 km. Fyrstu norsku kaupendurnir fá bíla sína afhenta í nóvember.
Eingöngu verður hægt að kaupa bílinn á Netinu. Tvær gerðir eru af bílnum og er verðið frá fimm milljónum íslenskra króna.
Þess má geta að kínverski bílaframleiðandinn tilkynnti í upphafi þessa árs um nýjan rafsportbíl sem gengur undir nafninu P7. Sérfræðingar fullyrða að hann eigi eftir í framtíðinni að veita Tesla Model 3 harða samkeppni. P7 hefur yfir að ráða mikilli drægni og með 80,9 kWh rafhlöðu. Bíllinn fer úr kyrrstöðu upp í 100km/klst. á 4,3 sekúndum. Bíllinn hefur eingöngu fram þessu verið til sölu í Kína.
Gríðarleg þróun er almennt í framleiðslu rafbíla í Kína um þessar mundir og horfa framleiðendurnir hýra auga til Evrópu. Kínverjar hafa undirbúið sig lengi og munu koma af krafti inn á evrópskan markað á næstu árum.