Fyrsta skrefið gegn kílómetrasvindlinu
Jacob Bangsgaard framkvæmdastjóri Evrópudeildar FiA – samtaka bifreiðaeigendafélaga segir að nýjar Evrópureglur um árlega öryggisskoðun eldri ökutækja séu fyrsta skrefið í þá átt að hindra verslun milli landa með notaða bíla sem búið er að skrúfa niður kílómetrateljarana í.
Þessar nýju reglur Evrópusambandsins fela það í sér að eldri ökutæki verða framvegis öryggisskoðuð árlega og kílómetrastaðan þá jafnframt skráð. Mjög misjafnt hefur verið hingað til eftir ríkjum hversu oft eldri ökutæki hafa þurft að fara í skoðun. Sumsstaðar hefur slík skoðun farið fram á fimm ára fresti meðan bíllinn er í eigu sama aðila, en aðeins skylt að skoða hann við eigendaskipti.
Viðskipti með eldri bíla milli landa eru veruleg í Evrópu og þegar eldri bílar eru einungis skoðaðir á t.d. fimm ára fresti gefur það auga leið að gögn um kílómetrastöðu bílanna eru mjög fátækleg og illmögulegt fyrir kaupendur notaðra bíla að rengja lágar og þar með aðlaðandi aksturstölur sem hugsanlega eru hreinn tilbúningur seljanda.
Viðskipti milli landa með eldri bíla með breyttum kílómetrateljaratölum eru veruleg í Evrópu. Mjög auðvelt er að „skrúfa“ niður aksturstölur bíla til að gera þá þannig verðmætari í sölu. Mjög auðvelt er að nálgast sérstakar tölvur eins og þá á myndinni með þessari frétt sem seldar eru gjarnan undir heitinu Milage Correction. Svik af þessu tagi eru talin snerta milli 5 og 12 prósent allra viðskipta með notaða bíla í Evrópu og samanlagður kostnaður af þessu svindli nema milljörðum evra á hverju ári. Frá þessu var greint ítarlega í grein í vorblaði FÍB blaðsins sem kom út í maí sl.