Fyrsti nýi Saab bíllinn í tæp þrjú ár
Í gær var byrjað að afgreiða fyrstu nýju Saab bílana til sænskra kaupenda. Framleiðsla hófst á ný í verksmiðjunni í Trollhättan í Svíþjóð mánudaginn 2. des. eftir tveggja og hálfs árs hlé. Ein gerð er framleidd; Saab 9-3 Aero stallbakur með 220 ha. 2,0 l túrbínubensínvél.
Bílarnir eru aðallega ætlaðir fyrir kínverska bílamarkaðinn fyrst um sinn, en nokkrir sérbúnir bílar eru í boði í Svíþjóð beint frá heimasíðu eignarhaldsfélagsins NEVS sem nú er eigandi Saab. Í frétt frá NEVS í morgun segir að sölusíðan hafi verið opnuð í gærmorgun og þá strax hafi 15 manns pantað sér nýjan Saab bíl.
Sölustjórinn Jonas Hernqvist segir í fréttatilkynningu að það sé gleðilegt að finna hversu margir hafi áhuga á því að eignast nýjan Saab og hafi kaupandi fyrsta nýja Saab bílsins í tæplega þrjú ár mætt í höfuðstöðvarnar í Trollhättan í gær til að taka bílnum. (Sjá mynd).
„Við erum þakklát og auðmjúk og vonum að þessi fyrstu viðbrögð séu merki um bjarta framtíð,“ segir sölustjórinn. Hann segir að eftir áramótin færist meiri kraftur í sölustarfsemina og þá verði hægt að fá bíla lánaða til reynsluaksturs.