Gæti verið fordæmisgefandi
Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hefur kveðið upp þann úrskurð að tryggingartaki bifreiðar sem varð fyrir tjóni eigi rétt á að fá tjónið bætt með greiðslu áætlaðs viðgerðarkostnaðar ásamt virðisaukaskatti. Tryggingafélagið hafði áður hafnað kröfu viðkomandi þar um en Morgunblaðið fjallaði um málið í helgarútgáfu blaðsins.
Upphaf málsins er sú að eigandi bifreiðarinnar sem var með kaskótryggingu lenti í tjóni og óskaði eftir því að fá bæturnar greiddar beint til sín, í stað þess að fara með bílinn á verkstæði og fá reikninginn endurgreiddan. Vátryggingafélagið hafnaði kröfu tryggingataka um að bótafjárhæðin innihéldi vsk. af áætluðum kostnaði við viðgerðina og vísaði til þess að bæturnar tækju mið af mati á tjóni bifreiðarinnar og þegar slíkar bætur væru greiddar án þess að viðgerð ætti sér stað, þá væri ekki tekið tillit til fjárhæðar vsk. af vinnuliðnum. Ef lögð væri fram nóta sem sýndi fram á kaup varahluta yrði hún greidd.
Þetta mál þykir áhugavert fyrir bifreiðaeigendur og gæti verið fordæmisgefandi. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenska bifreiðaeigenda, FÍB, segir málið varða kaskótjón og gengur úrskurðurinn út á það að viðkomandi bíleigendi hafi verið boðnar bætur vegna tjónsins. Hann vildi fá svokallaðar samkomulagsbætur að frátöldum launatengdum gjöldum og virðisaukaskatti á vinnulið. Í rauninni gæti hann fengið virðisaukann af varahlutum ef hann kæmi með reikning þar að lútandi til tryggingafélagsins.
Það er bara verið að hafa fé af fólki ef svo má að orði komast
,,Þessi túlkun getur átt við í einhverjum tilfellum varðandi atvinnufyrirtæki þar sem er vaskinnskattur. Það þurfi þó að skoða í vissum tilfellum fyrir sig. Það hafa verið einhver brögð að því að tryggingafélög hafa verið að bjóða fólki þessa úrlausn sem er bara óásættanleg. Það er bara verið að hafa fé af fólki ef svo má að orði komast. Það liggur fyrir að við eigum okkar einkabíl og lentum í óhappi og því fylgir einhver eigin áhætta í kaskótjóni. Viðkomandi er kannski í þeirri stöðu að hann er ekki alveg til í að fara í viðgerðarkostnað, eða getur það ekki í augnablinu. En verðrýnunin á ökutækinu er það sem kostar að gera við hlutinn,“ sagði Runólfur Ólafsson í samtali í Býtinu á Bylgjunni.
Að sögn Runólfs á alltaf að bæta það tjón sem viðkomandi varð fyrir. Það kemur fram í vátryggingarlögum að það ber að bæta með öllum tilfallandi kostnaði, svo sem virðisaukaskatti, ekki nema um annað sé samið. Það er ennfremur í vátryggingarskilmálum tryggingafélaganna hvað kaskótryggingar áhrærir er ekki ákvæði um að þetta sé inni. Fólk á gæta þess að skrifa ekki undir slíkt samkomulag. Við höfum ekki fengið svona mál inn á borð til okkar síðustu misseri. Eitthvað var um þetta áður. Við ráðleggum fólki alltaf samt að krefjast fullra bóta, eða láta gera við á viðurkenndu verkstæði,“ sagði Runólfur.
Runólfur var spurður að því hvort fólk ætti einhverjar kröfur á tryggingafélögin aftur í tímann. Runólfur sagði að það gæti alveg verið. Um fram allt þurfa viðskiptin að vera heiðarleg og allt uppi á borðum. Fólk þarf að hafa varann á sér. Lesa vel í gegnum skilamála áður en það gengur frá tryggingakaupum.