Gætum okkar á ránsfólki í sumarfríinu
Plat-lögreglubíll á Spáni
Stór ferðahelgi Íslendinga er að ganga í garð, aðal sumarfrístímabilið er að hefjast og FÍB óskar öllum góðrar ferðar hvar sem þeir verða – heima eða erlendis.
Til þeirra sem ferðast í Evrópu í sumarfríinu hefur ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi sent út viðvörun til félagsmanna sinna og félagsmanna evrópskra systurfélaga sinna. Í henni er ferðafólk minnt á þau sannindi að sumarleyfistímabilið er talsverður uppgripatími afbrotamanna og er það bæði gömul saga og ný.
Afbrotamenn beita ýmsum mis félegum aðferðum við að ræna ferðafólk verðmætum sem það hefur meðferðis, allt frá því að dæla gasi inn í húsbíla, hjólhýsi og tjöld ferðalanga og svæfa þá sem inni eru og ræna síðan, eða setja á svið alls kyns blekkingaleiksýningar til að dreifa athygli fórnarlambanna meðan aðstoðarmenn ræna og rupla. ADAC tekur fram að tíðni glæpa gegn ferðamönnum sé alls ekki neitt ógnvænlega há eða vaxandi, heldur sé viðvörunin hugsuð til þess að fólk hafi á sér andvara.
Það er einkum á Spáni sem bófar hafa tekið upp á því að gefa sig út fyrir það að vera lögreglumenn. Þeir stöðva gjarnan bíla á vegum úti og heimta að fá staðgreiddar háar sektir fyrir meint umferðarlagabrot. Oft nýta þessir aðilar tækifærið meðan bíll ferðalanganna hefur stöðvað að einn þykist yfirheyra „hinn brotlega“ meðan félagar hans hirða allt lauslegt sem þeir ná að klófesta úr bílnum.
Önnur aðferð sem þekkt er frá Spáni er sú að skera á hjólbarða bíla og koma síðan eins og frelsandi engill og bjóðast til að aðstoða við að skipta um dekk. Meðan einn hefur uppi tilburði við dekkjaskipti rænir félagi hans öllu sem hönd á festir og síðan hlaupa „hjálparmennirnir“ á brott.
Í Suður Frakklandi hefur fjölgað þeim tilfellum þar sem fólk sem hvílist eða sefur í húsbílum eða hjólhýsum – einkum utan opinberra tjaldsvæða - að reynt er að sprauta svæfingargasi inn í farartækið og ræna síðan og rupla öllu sem hönd á festir meðan fólkið liggur í dái.
Algengasta aðferð þjófanna er þó enn sú að hreinlega brjótast inn í bíla meðan enginn er í þeim. Munið því að læsa alltaf bílnum þegar hann er skilinn eftir á bílastæði og látið aldrei nein verðmæti sjást í sætum eða á gólfi bílsins þegar hann er yfirgefinn.
Þegar ekið er í hægri borgarumferð er skynsamlegt að hafa dyr læstar til að hlaupandi ræningjar eða ræningjar á skellinöðru geti ekki skyndilega rifið upp dyr og hrifsað handtöskur. Myndavélar eða önnur verðmæti og horfið síðan út í buskann.