Gamlir bílar seldir sem nýir
Það er ekki viðunandi lengur að neytendur fái þær einu upplýsingar um aldur bíla úr hinni opinberu bifreiðaskrá, hvenær bíll var fyrst skráður á Íslandi. Dagsetning fyrstu skráningar bílsins segir nefnilega alls ekki til um hversu gamall bíllinn er í raun. Dæmi eru um bíleigendur sem komust að raun um það þegar þeir ætluðu að selja bílinn, að hann var tveimur eða þremur árum eldri og að sama skapi verðminni en mátt hefði ætla. Þetta þýðir það jafnframt að þegar viðkomandi hélt sig vera að kaupa nýjan bíl, var í raun og veru verið að selja honum gamlan bíl - ónotaðan að vísu.
Mál sem varða aldur bíla koma mjög oft til kasta FÍB fyrir hönd félagsmanna og mörg þeirra ganga áfram til úrskurðarnefndar í lausafjár- og þjónustukaupamálum og í stöku tilfellum áfram þaðan til dómstóla. Koma mætti auðveldlega í veg fyrir flest þessara mála á einfaldan hátt: með því að skrá í bifreiðaskrá framleiðsludag eða –viku bíla og árgerð til viðbótar við fyrsta skráningardag. Með þessu móti fengju neytendur þessar mikilvægu upplýsingar óbjagaðar og milliliðalaust og gætu framvegis verið nokkuð öruggir um að kaupa ekki köttinn í sekknum, það er að segja bíl sem staðið hefur á einhverjum hafnarbakka eða geymslusvæði óvarinn, jafnvel árum saman.
Evrópskar reglur kveði á um að lágmarkið sé að skrá eitt af þessu og hér á landi sé því fylgt. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB telur þetta vera allsendis ófullnægjandi, því víðast hvar í nágrannalöndunum sé skráningin ítarlegri. Lýsing hefur gert athugasemdir varðandi þetta við Umferðarstofu og FÍB einnig, enda telja samtökin að þarna sé brotið á neytendarétti. „Það getur vel verið að menn geti skýlt sér á bak við einhverjar lagastoðir að þetta séu alla vega lágmarksupplýsingar, en Evrópusamþykktirnar ganga út á það að það séu að lágmarki þessar upplýsingar og allt umfram það er talið eðlilegt.“
Að sögn Runólfs hafa komið upp dæmi þar sem fólk hefur keypt bíla í þeirri trú að þeir væru mun nýrri en þeir í raun voru. „Bílar sem voru í rauninni framleiddir árið 2002 voru seldir hér á markaði ýmist sem árgerð 2005 eða 2006. Fólk sem keypti þessa bíla lenti seinna í vandræðum því að auðvitað hefur aldur bifreiðarinnar, hönnun og útlit áhrif á verð, þannig að það urðu sumir fyrir verulegu tjóni út af þessu.“
Runólfur bindur vonir við að ný stofnun, Samgöngustofa taki á málinu því hann segir nýjan bíl og ónotaðan ekki vera það sama.