Gasknúnum bílum fjölgar í Þýskalandi

http://www.fib.is/myndir/Gas2.jpg
Eftirspurn eftir gasknúnum bílum vex mjög hratt í Þýskalandi. Meginástæðan er að skattar á gas til notkunar í bílum eru talsvert lægri en af bensíni og dísilolíu. Í byrjun ársins voru gasbílar á skrá í Þýskalandi um 71 þúsund talsins, eða helmingi fleiri en í upphafi síðasta árs.

Útsöluverð á gasi til notkunar á bíla er um það bil 30% lægra en á samsvarandi magni af bensíni eða dísilolíu. ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur reiknað út að viðbótarkostnaður við að búa bíla til aksturs á gasi jafnist út við um það bil 50 þúsund kílómetra akstur.

Algengasta gastegundin sem notuð er á bíla er jarðgas, ýmist própan- eða bútangas eða blanda hvors tveggja. Einnig er metangas eins og það sem unnið er á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi á Kjalarnesi algengt. Þeir bílar sem ganga fyrir jarðgasi pústa út sömu kolmónoxíð-, koldíoxíð- og köfnunarefnissamböndum og bílar sem aka á bensíni eða dísilolíu, en bara verulega minna magni.

Í Þýskalandi eru nú um tvö þúsund bensínstöðvar þar sem einnig má fá bílagas.
http://www.fib.is/myndir/Gas1.jpg