Gatnaþrif ganga hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir
Húsagötur í borginni verða sópaðar og þvegnar á næstu vikum. Farið er hverfaskipt um borgina og breytilegt milli ára í hvaða hverfi vinnan hefst. Undir lok síðustu viku var unnið á Kjalarnesi og í þessari viku verður sópað og þvegið í Leitum, Vesturbæ, Árbæ, Selási og Ártúnsholti. Íbúar eru hvattir til að færa bíla úr almennum stæðum til að hreinsunin gangi sem best fyrir sig.
Vorhreinsun hófst nokkru fyrir páska þegar byrjað var á fjölförnustu leiðunum, hjólastígum, stofnbrautum og safngötum. Með þessu vinnulagi er verið að sinna fyrst þeim leiðum sem flestir njóta. Áfram verður unnið að hreinsun á næstu dögum.
Björn Ingvarsson, stjórnandi hjá þjónustumiðstöð borgarlandsins, segir að hreinsun standi yfir af fullum krafti. Hann hefði viljað sjá verkið komið lengra og ljóst nú þegar að 1-2 vikna seinkun verður miðað við upphaflega áætlanir. Þetta eigi aðallega við um götur og göngustíga í þjónustuflokki 2.
,,Við erum að gera okkur vonir um að hreinsunini verði lokið um miðjan maí. Ástæður fyrir seinkuninni má rekja til Covid-19 en verktakinn tjáði okkur að hann hefði misst starfsmenn um tíma af hennar sökum. Eins verða veðurskylirði að vera hagstæð. Hjólastígar eru fullkláraðir, vel gekk að þrífa þá, enda er ekki borinn á þá sandur,“ sagði Björn Ingvarsson í samtali við FÍB.