General Motors borgar skuldir sínar
Í dag leggur General Motors fram ársfjórðungsuppgjör. Kvisast hafði út fyrir helgina að nú væri þetta fyrrum stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar komið réttu megin við núllið og það svo að það getur farið að greiða af þeim lánum sem það fékk hjá bandarískum, kanadískum og þýskum stjórnvöldum. Í Bandaríkjunum eru umsamdar afborganir milljarður dollara ársfjórðungslega. Þá er GM þegar búið að greiða þýskum stjórnvöldum rúman helming þess fjár sem fenginn var að láni þar vegna Opel.
Bandaríski bílamarkaðurinn er í greinilegum afturbata þótt enn þyki ekki tímabært að aflýsa „hættuástandinu“ sem ríkt hefur í kreppunni. En sala nýrra bíla er betri en lengi áður og mun betri en búist var við. Það gildir ekki einungis um GM heldur líka Ford og Chrysler.
Lánið sem þýska ríkisstjórnin útvegaði GM í byrjun sl. sumars var upp á 1,5 milljónir evra og var hugsaði til að halda Opel á floti þar til búið yrði að selja fyrirtækið. Þegar stjórn GM hætti síðan skyndilega við að selja Opel voru þýskir stjórnmálamenn, ekki síst Angela Merkel kanslari, mjög ókátir og ekki seinir á sér að krefjast endurgreiðslu lánsins. Og það má segja GM til hróss að það hefur heldur ekki staðið á þeim að borga því að eftir 200 milljóna evra afborgun á föstudaginn er einungis 400 milljónir evra eftir af þýska láninu sem verða greiddar fyrir mánaðamótin að sögn talsmanns GM-Europe.
Skuldamálin í N. Ameríku eru heldur flóknari fyrir nú utan það hversu skuldarupphæðin er miklu hærri. GM fékk 50 milljarða dollara frá bandarísku ríkisstjórninni í peningum en stjórnin tók fyrir hönd skattborgara 60,8 prósent af hlutabréfunum í GM í pant. Kanadíska ríkisstjórnin fór svipað að, lagði 10,5 milljarða dollara inn á reikning hjá GM en tók í staðinn 11,7 prósent hlutabréfa í GM.
En 6,7 milljarðar dollara af bandaríska láninu og 1,4 milljarðar 1,4 milljarðar af því kanadíska skoðast sem hreint lán sem verður að greiða til baka. Afgangurinn skoðast hins vegar sem víkjandi lán á þann hátt að verði ekki greitt af honum eignast bandarískir og kanadískir skattborgar hlutabréfin í GM.
Samkvæmt fréttum í bandarískum fjölmiðlum um helgina eru horfurnar það góðar hjá GM að stjórnin telur sig ráða við það að greiða bandaríska lánið niður um milljarð dollara á hverjum ársfjórðungi og það kanadíska um 200 milljónir dollara. Markmið stjórnarinnar sé það að koma GM aftur inn á hlutabréfamarkað fyrir árslok 2010 þegar lánin verða að mestu greidd upp.
En það sem helst vinnst með þessum æfingum öllum er það að orðspor GM fer batnandi. GM fær jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum enda sýnist fyrirtækið stefna hraðbyri að því að vera framsækið og arðsamt fyrirtæki. Verð hlutabréfa hækkar þar með og almenningur tekur á ný að treysta framleiðsluvörunum (bílunum frá GM).