Genfarbílasýningin 2014

Nýjasti jeppinn, eða Jeep Renegade, verður frumsýndur á bílasýningunni í Genf sem opnuð verður á föstudag. Reyndar er ekki víst að hann muni heita Renegade því talið er að nafnið geti allt eins orðið Jeepster.

Bíllinn á vafalítið eftir að vekja talsverða athygli enda er hann umtalsvert minni en Jeep bílar hafa lengstum verið.  Segja má að hann sé einskonar ávöxtur samruna Fiat og Chrysler – undirvagninn er sá sami og í Fiat 500x og framleiðslan bæði fyrir Evrópu- og Ameríkumarkaði fer fram á Ítalíu.

Renegade er fjórhjóladrifinn en hægt að velja milli tveggja gerða fjórhjóladrifkerfa. Annað er hefðbundið sítengt fjórhjóladrifskerfi eins og í jepplingum en hitt er með millikassa fyrir hátt og lágt drif. Báðar drifgerðirnar eru með hinni svokölluðu Jeep Selec-Terrain viðbót sem gerir ökumanni mögulegt að velja milli þess að aka í drifham sem best hæfir akstri í snjó, sandi, grjóturð, leðju eða sjálfvirkum ham. 

Á bæði Evrópu- og N. Ameríkumarkaði geta kaupendur valið milli tveggja bensínvélagerða. Báðar eru fjögurra strokka. Sú fyrri er 1,4 l með túrbínu, 168 hö. Hin er 2,4 l, 184 hö. Til viðbótar geta Evrópumenn valið milli tveggja til þriggja  gerða dísilvéla. Staðalgírkassinn er sex gíra og handskiptur en í boði er níu hraða sjálfskipting.

Þessi nýi jeppi er væntanlegur á evrópsku og bandarísku bílamarkaðina með haustinu sem árgerð 2015 og áætluð ársframleiðsla er 150 þúsund bílar. Þessi nýi jeppi keppir á markaði við bíla eins og Mini Cooper Countryman, Nissan Juke og Buick Encore/Opel Mokka.