Gengur á bæði vetni og bensíni

 http://www.fib.is/myndir/Mazda-RX8-Hydrogen.jpg
Mazda RX-8 - gengur jafnt á vetni og bensíni. 

Í Noregi er um þessar mundir verið að feta í fótspor Íslendinga með opnun fyrstu vetnisáfyllingarstöðvarinnar í landinum 22. ágúst nk. í olíubænum Stavanger. Opnun stöðvarinnar tengist vetnisráðstefnu sem fer þar fram um „-vetni, eldsneyti framtíðarinnar,“ eins og yfirskrift ráðstefnunnar er. Af því tilefni er japanska bílafyritrtækið Mazda sem er í eigu Ford, að sýna vetnisknúinn sportbíl í Noregi og í framhaldinu víðar um Evrópu.

Bíllinn sjálfur ef af gerðinni RX-8 sem er velþekktur bíll meðal áhugamanna um sportlega bíla. Hið óvenjulega við þennan vetnisbíl er að hann er ekki með efnarafal sem breytir vetninu í rafmagn sem knýr hann áfram, heldur er hann með hinum gamalkunna Wankel-bensínmótor en í stað bensíns brennir hann vetni og þegar vetnið klárast getur bíllinn eftir sem áður ekið á bensíni.

Mazda hefur um nokkurt skeið þróað Wankelvélar sínar til þess að gera þær jafnvígar á vetni sem bensín og hafa fyrirtæki í Japan sem reka bílaflota um nokkurn tíma getað fengið bíla með þessum vélum leigða og lánaða og er þessi útgerð liður í umræddri þróunarvinnu Mazda.