Ghosn, Renault-forstjóri gefur duglega í
Carlos Ghosn, forstjóri Renault og Nissan.
Nýlega kynnti Carlos Ghosn, forstjóri Renault og Nissan, nýja þriggja ára framtíðarsýn fyrir samstæðuna. Kynningin, sem var fyrir umboðs- og samstarfsaðila Renault og Nissan um allan heim, fór fram á Netinu undir yfirskriftinni Renault Commitment 2009.
Ghosn lagði áherslu á að gæði, arðsemi og vöxtur væru helstu lykilhugtökin í framtíðarsýn Renault til ársins 2009. Renault ætlaði sér að verða meðal þriggja fremstu bílaframleiðenda heims, bæði hvað varðar vöru- og þjónustugæði, auka á arðsemi rekstursins úr 3,2% í 6% af veltu og loks yrðu 24 nýjar gerðir frumkynntar á þessum þremur árum, eða átta á ári. Auk nýrra gerða verða gerðar uppfærslur á bæði Megani II og á Scénic, framleiðslan verður aukin um 800 þúsund bíla á ári og þriðjungur bílanna sem framleiddir verða, munu gefa frá sér minna en 120 grömm á hvern kílómetra af koltvíildi.
Afkoma samstæðunnar í Evrópu hefur verið undir væntingum undanfarin tvö ár, sértaklega þó í Vestur-Evrópu þar sem bílasala hefur verið í mikilli lægð. En Renault er þó ekki í neinum vandamálum því að hagnaður Renault nam á síðasta ári tæpum 3,7 milljörðum evra. Sá hagnaður kom að mestu leyti frá Mið- og Austur-Evrópu, Suður-Ameríku, Rússlandi og Norður-Afríku.
Ghosn skaust upp á stjörnuhimininn fyrir nokkrum árum, þegar hann sneri við gríðarlegum taprekstri Nissan á mettíma eða á innan við tveimur árum. Á síðasta ári var honum boðinn forstjórastóll Renault, sem á tæpan helmingshlut í Japanska bílaframleiðandanum, með það að skilyrði að hann leiddi endurskoðun á öllum rekstri samstæðunnar.