Tilgangur vanrækslugjaldsins er að auka öryggi í umferðinni
Fjöldi tilfella álagðra vanrækslugjalda vegna ökutækis sem ekki er fært til lögbundinnar skoðunar á tilsettum tíma er hátt í 40 þúsund á ári. Lítil breyting hefur orðið á fjölda álagninga þau 10 ár sem kerfið hefur verið við lýði, en tilgangur vanrækslugjaldsins er að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferðinni. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) segir gjaldið ekki ná tilgangi sínum því hægt sé að greiða það án þess að færa ökutækið til skoðunar á ný. Hefur RNSA nú beint þeirri tillögu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka til endurskoðunar viðurlög við að vanrækja skoðunarskyldu ökutækja.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir það vera „mjög furðulega ráðstöfun“ að hægt sé að greiða vanrækslugjald án þess að fara með viðkomandi ökutæki í skoðun. „Umferðin er ekki einkamál hvers og eins,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir tilgang vanrækslugjaldsins að auka öryggi í umferðinni. „Umferðin er ekki einkamál hvers og eins og þetta gjald er hugsað sem ákveðin forvörn – forvarnarhlutinn fer aftur á móti fyrir lítið þegar menn geta bara greitt gjaldið án þess að fara með ökutækið í skoðun,“ segir hann og heldur áfram: „Miðað við þetta þá tryggir þetta gjald bara ríkissjóði auknar tekjur en uppfyllir ekki meginmarkmið sitt.“
Nánari umfjöllun um málið á mbl.is má nálgast hér.