Gjaldskylda á bílastæðum tekin upp í miðbæ Akureyrar
Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að taka upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbænum. Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi í lok sumars. Tvö gjaldsvæði verða þar sem nú eru gjaldfrjáls klukkustæði, verkefnahópur sem vann að undirbúningi breytinganna leggur til að 200 krónur muni kosta að leggja í klukkustund á öðru svæðinu en 100 krónur á hinu. Embættismönnum bæjarins hefur verið falið að útfæra tillögur, m.a. um gjaldskrá. Þetta kemur fram á vefmiðlinum akureyri.net
Helstu markmið með breytingunum, skv frétt á vef bæjarins, eru eftirfarandi:
- Bæta lífsgæði og skapa tækifæri fyrir fjölbreyttari notkun bæjarlands með því að stýra betur eftirspurn eftir bílastæðum.
- Draga úr umferð, umferðartöfum, útblæstri og hljóðmengun. Einnig að bæta umferðaröryggi fyrir aðra vegfarendur með því að draga úr fjölda ökumanna sem aka um og leita að lausum bílastæðum.
- Styðja við verslun og fyrirtæki, með því að auðvelda viðskiptavinum (íbúum og ferðamönnum), þjónustuaðilum og gestum að finna laus bílastæði.
Samhliða því að tekið verður upp gjald fyrir bílastæði á ný er gert ráð fyrir því að gjald fyrir fastleigustæði verði hækkað og að innleitt verði nýtt gjald fyrir bílastæðakort sem íbúar í miðbænum hafa hingað til fengið sér að kostnaðarlausu.
Stefnt er að því að nota nýjustu tækni við innheimtu gjalda með hjálp smáforrits þannig að fólk geti greitt í símanum, en einnig verða settir upp greiðslustaurar. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar verða auglýstar þegar nær dregur.
Vilja bæta nýtingu bílastæða
Verkefnahópur sem var skipaður starfsfólki bæjarins, ásamt sérfræðingi frá Eflu, kortlagði og undirbjó breytingarnar undanfarna mánuði. Breytingarnar eru í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar, sem liður í að stefna að sjálfbærum rekstri bæjarins, og eiga að stuðla að bættri nýtingu bílastæða í miðbænum, segir á vef Akureyrar.
Þar segir: „Í stuttu máli fela tillögur hópsins í sér að tekin verði upp tvö gjaldsvæði þar sem í dag eru gjaldfrjáls klukkustæði. Gjaldskyldutíminn taki að mestu mið af núverandi gildistíma klukkustæða og verð stuðli að því að bílastæðanýting sé um 85%, sem samsvarar því að ávallt verði eitt til tvö laus stæði í hverjum götulegg/svæði. Lagt er til að gögnum um notkun verði safnað reglulega og beitt til að ákvarða gjaldskrá og stýra eftirspurn. Sama stefna var tekin upp hjá Reykjavíkurborg árið 2019 en almennt hefur sambærileg stefna verið útfærð víða erlendis.“