Gjöld boðuð á rafmagnsbíla
Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á fundi í dag kom m.a. fram að nýtt 5% lágmarksvörugjald verður sett á bifreiðar á næsta ári og mun þá fullur afsláttur vegna rafmagnsbíla vera úr sögunni
Í máli ráðherrans kom fram að áfram yrðu miklir hvatar til kaupa á umhverfisvænum bifreiðum og sýndi dæmi fyrir því í kynningunni. Þar kom fram að áætluð árleg bifreiða- og eldsneytisgjöld fyrir hvern rafmagnsbíl af gerðinni Tesla model 3 yrði um 30 þúsund á ári, en í dag nema þau gjöld um 20 þúsund. Til samanburðar sagði hann slík gjöld fyrir hefðbundna fólksbifreiðar vera 120 þúsund í dag, en færu upp í 140 þúsund á næsta ári. Varðandi vörugjöld og virðisaukaskatt mátti gera ráð fyrir að slík gjöld hækki um í kringum 300 þúsund fyrir rafmagnsbifreiðar samkvæmt kynningunni.
Farm kemur í tilkynningu að stærsta verkefnið á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum er heildarendurskoðun gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum fólksbílaflotans og sífellt sparneytnari bílum í umferð hafa tekjur ríkisins af ökutækjum og eldsneyti dregist verulega saman. Við því þarf að bregðast með nýjum lausnum, svo áfram megi standa undir öflugu viðhaldi og uppbyggingu í samgöngukerfinu að því er fram kemur í tilkynningunni.
Stefnt er að því að fyrirkomulag gjaldtöku miðist í auknum mæli við notkun, en breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum á næsta ári er ætlað að marka fyrstu skrefin að nýju kerfi.