Glæsileg ný vefverslun FÍB er komin í loftið

Netverslun FÍB er orðin rúmlega áratugs gömul og er því ein af elstu netverslunum landsins. Undanfarið hefur farið fram umtalsverð vinna við hana til að gera viðskipti við hana auðveldari og aðgengilegri en jafnframt öruggari. Jafnframt hefur útliti hennar og notendaviðmóti verið breytt mjög til hins betra.
„Gamla vefverslunin okkar er komin nokkuð til ára sinna og hún var auðvitað barn síns tíma og kominn tími til að uppfæra hana,“ segir Ólafía Ásgeirsdóttir skrifstofustjóri FÍB í samtali við FÍB blaðið. Hún segir að mikilvægasta breytingin lúti að öryggi viðskiptavinanna. Nú sé greiðslukerfið alfarið vistað hjá kortagreiðslufyrirtækinu Borgun. Það þýðir það að öll úrvinnsla og millifærslur af greiðslukortum fara fram á einum öruggum stað þar sem þær eru rækilega dulkóðaðar. Engin kortanúmer eða aðrar viðkvæmar upplýsingar vistast annarsstaðar þar sem óvandaðir hakkarar gætu hugsanlega komist yfir þær og misnotað í eigin þágu.
Enn meiri breytinga er að vænta á vefversluninni síðar á árinu því að unnið er að sameiginlegri vefverslun FÍB og hinna systurfélaganna á öllum Norðurlöndunum. Það þýðir að vöruúrval stóreykst og verð gæti lækkað vegna hagstæðra magninnkaupa. Sérstakur starfshópur vinnur nú að því að sameina vefverslanir norrænu systurfélaganna og m.a. að ákveða hvar sameiginlegur vörulager hennar verður staðsettur. Fulltrúi FÍB í starfshópnum er Ólafía Ásgeirsdóttir. Hún segir að staðsetning lagersins skipti nokkru máli þar sem hún muni hafa áhrif á endanlegt neytendaverð varanna frá versluninni. Nánar verður greint frá framvindu þessa máls síðar.

Slóð vefverslunarinnar er: https://verslun.fib.is/