Gleðifréttir fyrir flugfélögin og viðskiptavini þeirra
Í tilefni af umfjöllun FÍB-blaðsins um samstillar verðhækkanir Icelandair og Iceland Express að undanförnu ræddi fréttastofa Ríkisútvarpsins í gær við upplýsingafulltrúa Icelandair. Hann sagði í viðtalinu að helmingurinn af svokölluðum "sköttum og gjöldum" félagsins væri eldsneytisgjald vegna olíuverðshækkana. Hann sagði þetta vera tímabundið gjald sem vonandi færi af "ef og þegar" olíuverð lækkaði.
FÍB getur glatt flugfélögin – og viðskiptavini þeirra – með því að upplýsa að frá því í september síðastliðinum hefur verð á þotueldsneyti lækkað um 25%. Í september voru skattar og gjöld Icelandair frá Reykjavík til Kaupmannahafnar 8.370 kr. (og svipuð til annarra áfangastaða). Ef marka má orð upplýsingafulltrúa Icelandair hafa um 4.000 kr. af þessari upphæð verið vegna olíuverðs í september. Þar sem olíuverð hefur nú lækkað um 25%, þá hlýtur að vera sjálfgefið, samanber það sem upplýsingafulltrúinn sagði, að eldsneytisgjaldið lækki sem allra fyrst um 25%, eða 1.000 kr. Það hlýtur þá einnig að vera sjálfgefið að samsvarandi lækkun verður hjá Iceland Express, enda segja fulltrúar beggja félaganna að þau standi í hörku samkeppni.