Gleymið ekki evrópsku vegatollunum
Það getur orðið dýrt spaug að gleyma að kaupa hraðbrautamerkimiða sem límdir eru í framrúðuna eins og sjá má af samantekt hins danska og þýska systurfélags FÍB, FDM og ADAC, hér.
Þau eru orðin alls 20 Evrópulöndin sem rukka sérstaklega fyrir akstur á hraðbrautum sínum. Ef maður er stöðvaður á gjaldskyldri hraðbraut án hraðbrautamiða í framrúðunni má maður eiga von á hárri sekt, miklu hærri en sem nemur verði miðans. Slík sekt getur gengið illilega á ferðasjóðinn í sumarfríinu.
Í Slóvakíu er lágmarkssekt þrefalt verð hraðbrautamiðans, en getur hugsanlega orðið allt að 500 evrur. Og ekki eru sektirnar lægri annarsstaðar: í Austurríki eru algengar upphæðir þeirra 120-300 evrur. Í Slóveníu nema sektirnar 300-800 evrum.
Veggjaldainnheimtan er nokkuð mismunandi frá einu landi til annars. Algengast er að selja ferðalöngum aðgöngumiða að hraðbrautum með tilteknum gildistíma eða þá tölvukubb til að festa innaná framrúðuna. Lesarar á hraðbrautunum sjá svo hvort miði eða kubbur er í bílunum og senda eftirlitsfólki og lögreglu boð um bíla með enga eða ógilda miða/kubba. Þessir miðar/kubbar eru víðast hvar fáanlegir með mismunandi löngum gildistíma og þá á mismunandi verði, nema í Sviss. Þar fæst einungis einn gildistími sem er eitt ár.
Hin innheimtuaðferðin sem tíðkast er sú að innheimta vegtolla eftir ekinni vegalengd. Þar sem þannig háttar er oftast tekinn miði úr vél sem þá lyftir bómu svo hægt sé að aka inn á tollveginn. Síðan er gjaldhlið þar sem ekið er út af viðkomandi hraðbraut. Einnig tíðkast að láta vegfarendur greiða áður en ekið er inn á tollveg.
Mjög ráðlegt er að ferðalangar kynni sér vel hvaða reglur gilda í því eða þeim löndum sem ætlunin er að aka um og hver er upphæð vegatollanna áður en lagt er af stað. Verðið sem innheimt er er mjög misjafnt eftir löndum og í stórum dráttum þannig að Ódýrastar eru hraðbrautirnar í Rúmeníu en dýrastar í Slóveníu. En það eru ekki bara hraðbrautirnar sem kosta: Í nokkrum löndum er rukkað sérstaklega fyrir akstur yfir brýr og um jarðgöng í grennd við borgir.
Hér er að finna tæmandi yfirlit á dönsku yfir vegatollataxta og reglur um vegatollainnheimtu og viðurlög í þeim 20 Evrópulöndum sem rukka vegatolla.
Og hér er hægt að kaupa hraðbrautamiða fyrir Austurríki, Sviss og Tékkland.