GM á fullt í rafbílana
GM reiknar með að eftir einungis fimm ár verði hálf milljón GM-rafbíla komnir í umferð. Bæði verður um að ræða hreina rafbíla, rafbíla með rafstöð um borð og tvíorkubíla þar sem bæði rafmótor og brunahreyfill knýja hjólin ýmist saman eða í sitt hvoru lagi, (kallast eAssist hjá GM). Þetta kom fram hjá Mary Barra, framkvæmdastjóra tækniþróunardeildar GM nýlega.
Chevrolet Volt/Opel Ampera tímamótabíllinn frá GM hefur að vísu ekki selst jafn vel og vonir stóðu til, en hann er engu að síður afar vel heppnaður og fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn sem búinn er innbyggðri rafstöð. Sala á honum hefur mjög verið að glæðast að undanförnu bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og á Íslandi er hann þegar fáanlegur bæði sem Opel Ampera og Chevrolet Volt.
Flestir þéttbýlisbúar nota bíla sína til að skjótast milli áfangastaða innan þéttbýlis og dagleg akstursvegalengd einkabíla er sjaldan lengri en 80 kílómetrar og yfirleitt milli 30-50 km. Það þýðir að rafhleðsla bíla eins og Chevrolet Volt/Opel Ampera dugar fyrir nánast alla innanbæjarnotkun bílsins ef notendur gleyma aldrei að stinga bílnum í samband heima að kvöldi.
Mary Barra sagði að Cadillac ELR verður með sama orkukerfi og Chevrolet Volt. Auk hans eru svo væntanlegir á næstunni raf- og tvíorkubílar undir merkjum Chevrolet, Buick og GMC og samtals er áætlað að selja 100 þúsund þessara bíla allra strax frá og með næsta ári.