GM að gefast upp á Opel?
Svo virðist sem stjórn General Motors sé við það að missa þolinmæðina gagnvart viðvarandi taprekstri Opel/Vauxhall í Þýskalandi og Bretlandi. Tíð mannaskipti í yfirstjórninni og hagræðingaraðgerðir og niðurskurðir hafa ekki dugað til að að snúa áralöngum taprekstri við. Fátt virðist því eftir annað en selja fyrirtækið eins og til stóð að gera árið 2009 en hætt var við í miðju kafi. Ennþá virðast menn ekki vera á eitt sáttir innan yfirstjórnar GM um hvað gera skuli.
En þýskir bílafjölmiðlar telja að nú sé þolinmæðin að þrotum komin hjá GM. Ársuppgjör Opel/Vauxhall 2011 verður birt í næstu viku og þótt sagan segi að tapið sé verulega minna en árið 2010 þá skipti það hundruð milljónum evra sem sé óásættanlegt. Þrátt fyrir að búið sé að skera niður mannafla um hátt í fimmtung og hagræða í framleiðslunni og Opel bjóði vissulega upp á ágæta bíla sem falla kaupendum vel í geð og seljast vel, virðist það ekki hafa dugað til að koma fyrirtækinu í gegn um efnahagskreppu áranna 2008-2009.
Þýskir fjölmiðlar telja líklegt að næst muni yfirstjórn GM reyna að hagræða enn meir í rekstrinum, trúlega með því að leggja niður samsetningarverksmiðjur Opel í Bochum í Þýskalandi og í Ellesmere Port í Bretlandi. Áður var búið að leggja niður verksmiðju Opel í Antwerpen í Belgíu. Þessar fregnir fóru illa í verkalýðsfélög starfsmanna og í kjölfar þeirra kom fréttatilkynning frá Opel/Vauxhall um að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um frekari lokanir verksmiðja í Evrópu.