GM blóðmjólkaði Saab
Saab. Bókhaldinu var hagrætt til að sýna tap, fullyrða sænskir verkalýðsleiðtogar.
Tveir sænskir verkalýðsleiðtogar fullyrða í grein í sænska dagblaðinu Dagens Industri að General Motors hafi alla tíð að yfirlögðu ráði séð til þess með bókhaldsbrögðum að Saab skilaði aldrei arði heldur væri „krónískt“ tapfyrirtæki. Með bókhaldsbrögðum hafi alla tíð verið séð til þess að allur arður sem varð til í rekstri Saab færi til móðurfyrirtækisins í Detroit en allt tap skilmerkilega skilið eftir hjá Saab.
Þau sem þessa grein rita eru Anette Hellgren og Paul Åkerlund. Anette Hellgren er formaður starfsmannafélags Saab - Unionen Saab Automobile og Paul Åkerlund er formaður félags málmiðnaðarmanna hjá Saab - IF Metall Saab Automobile. Þau gagnrýna GM harðlega og fullyrða að Saab hafi aldrei verið slíkt vandamálafyrirtæki sem látið var líta út fyrir.
Höfundarnir benda á að alþjóðleg risafyrirtæki eins og GM geti valið um það hvar þau koma fyrir kostnaðarliðum eins og þróunarkostnaði og tekjuliðum eins og söluhagnaði. Þannig deili þau þessum liðum meira og minna niður milli dótturfyrirtækja sinna eins og þeim sjálfum þykir best henta. Þannig fullyrða þau að Saab hafi aldrei fengið söluhagnað af sölu bíla sinna í Ameríku, heldur hafi hann verið bókfærður sem hagnaður móðurfyrirtækisins. Á hinn bóginn hafi Saab mátt bókfæra allan framleiðslu- og flutningskostnað vegna þessara sömu bíla.
Með þessum brögðum hafi GM getað sýnt fram á tap sitt af rekstri Saab þau tæplega 20 ár sem fyrirtækið hefur verið í eigu GM. Þennan sama tíma hefur alla tíð verið hagnaður af sölu Saab bíla í Evrópu enda bæði gjöld og tekjur skilvíslega færðar í bókhaldinu. Hefði slíkt verið gert líka hvað varðar þá Saab bíla sem seldir voru í Bandaríkjunum þá væri Saab í betri málum en nú er raunin.