GM endurskipuleggur sig í Evrópu
Opel Trixx. Tvennar dyr á hægri hlið, einar á þeirri vinstri.
Robert (Bob) Lutz forstjóri GM lýsti nýlega framtíðarsýni sinni á starfsemi hins hrjáða bílarisa í Evrópu. Bob Lutz er æðsti yfirmaður fjöldamargra dótturfyrirtækja og því væntanlega hægt að taka mark á honum.
Lutz boðar í fyrsta lagi þrjár til fjórar nýjar gerðir bíla á allra næstu árum. Fyrsti þessara nýju bíla verður Opel Antara jepplingurinn sem við sögðum frá hér á FÍB vefnum þann 11. maí sl. Þá kemur að líkindum nýr stór fólksbíll í stað Opel Omega á síðari hluta næsta árs. Lutz sagði að nauðsynlegt yrði að fylgjast vel með bílaþróuninni í Kóreu og Kína og kannski væri stutt í að fram á sjónarsviðið kæmi nýr smábíll í líkingu við hugmyndarbílinn Opek Trixx sem GM sýndi á bílasýningum í Evrópu á nýliðnum vetri.
Lutz var spurður út í sterkan orðróm um lokanir og niðurskurð í starfsstöðvum GM í Evrópu. Hann staðfesti að samdráttur yrði í Vauxhall verksmiðjunni í Ellesmere Port við Liverpool og 950 mönnum sem starfa á svonefndri þriðju vakt yrði sagt upp. Þetta hefði verið ákveðið þrátt fyrir hörð mótmæli breskra verkalýðsfélaga.
Lutz boðaði mikla uppstokkun á vélaframleiðslu GM í Evrópu. Nú framleiðir GM 1,8 milljón bílvélar á ári í tíu verksmiðjum í Bretlandi, Þýskalandi, Spáni og Svíþjóð og verður mörgum þeirra lokað á næstu tíu árum eða svo og vélaframleiðslan meira og minna sameinuð. Þegar er ákveðið að loka vélaverksmiðju Saab í Södertälje skammt sunnan Stokkhólms. Þar hafa 130 manns starfað við að framleiða um 60 þúsund Saab bílvélar á ári. 40 af þeim hefur verið sagt upp störfum. Vélaframleiðslan fyrir Saab flyst nú til vélaverksmiðju Opel í Kaiserslautern í Þýskalandi.
Opel Trixx hugmyndarbíllinn er þriggja sæta en með mjög sveigjanlegri innréttingu sem breyta má auðveldlega til að koma til móts við mismunandi flutningsþarfir eftir aðstæðum hverju sinni.