GM getur ekki bjargað Opel hjálparlaust
Svo virðist sem stjórn General Motors hafi verið of fljót á sér að blása af söluna á Opel á dögunum. Þetta kom fram á fundi sem hinn nýi forstjóri Opels, Nick Reilly átti með hópi þingmanna á Evrópuþinginu sl. mánudag. Opelforstjórinn mun í lok þessarar viku skila af sér fullbúinni áætlun um hvernig rekstur Opel verður endurskipulagður. En eitt er þó ljóst eftir fundinn með þingmönnunum og það er, að GM hefur ekki bolmagn til að endurreisa Opel hjálparlaust. Ríkjastuðningur er forsenda þess að það takist.
Þegar stjórn GM tók þá óvæntu ákvörðun að hætta við að selja Opel kanadíska íhlutaframleiðandanum Magna, fauk greinilega hressilega í þáverandi forstjóra Opel, Carl-Peter Forster sem tók sinn hatt og staf og gekk á dyr. Forster hafði verið aðal samningamaður GM við Magna og teldi sér verulega misboðið með ákvörðun stjórnarinnar. Söluferlið var það langt komið að Magna var búið að semja við félög starfsmanna Opel um uppsagnir 10 þúsund manna og lokunnar einnar samsetningarverksmiðju. Nú verður það væntanlega hlutverk nýja forstjórans að reyna að ná aftur samningum við stéttarfélögin um eitthvað svipað og síðan að semja við stjórnvöld í Þýskalandi, Spáni og víðar í Evrópu um fjárhagslegan stuðning.
Þegar GM greindi frá ákvörðun sinni um að selja ekki Opel kom fram það mat stjórnarinnar að endurreisn Opel myndi ekki kosta nema þrjá milljarða evra og það myndi GM sjálft greiða. Eftir mánudagsfundinn með þingmönnunum komu fram að stjórn GM hefði stórlega vanmetið endurreisnarkostnaðinn og nýji forstjórinn, Nick Reilly sagði að endurreisnin væri útilokuð án opinbers stuðnings.