GM heimtar peninga af Svíum til að bjarga Saab
Framtíð Saab er í mikilli óvissu.
Slegið hefur í nokkra brýnu milli sænsku ríkisstjórnarinnar og General Motors. GM heimtar af henni rúmlega fimm milljarða sænskra króna til að bjarga Saab. Snari ríkisstjórnin ekki út þessum peningum verði Saab lagt niður. GM hefur sett Svíunum þá úrslitakosti að svara fyrir þriðjudaginn, þann 17. febrúar, en það er sá dagur sem GM sjálft hefur verið skikkað til að leggja framtíðaráætlanir sínar fyrir bandaríska þingið. Telji þingið áætlunina trúverðuga getur GM átt von á fjárhagslegu liðsinni bandarískra yfirvalda.
Þetta er því eins og í ævintýrinu sem segir frá því þegar Einbjörn togaði í Tvíbjörn, sem tosaði í Þríbjörn o.s.frv. Meðan bíða starfsmenn Saab í ofvæni eftir því hver verður niðurstaðan í þessu valdatafli öllu saman. Þriðjudagurinn 17. febrúar er dagur sannleikans og þar til hann rennur upp heldur hver aðili um sig spilunum þétt upp að sér og gefa ekkert upp um hvaða kort eru á hendi og hverjum verður spilað út.
General Motors er mjög illa statt og hreinlega verður að fá lán á kostakjörum frá bandaríska ríkinu ef það á ekki að fara á hausinn á árinu. Og bandarísk stjórnvöld stilla GM upp við vegg og heimta að fá að sjá alvöru framtíðaráætlun áður en einn einasti dollar er greiddur út.
Á þriðjudaginn leggur svo GM framtíðaráætlun sína fyrir bandarísk yfirvöld og þá um leið verður hún vafalaust gerð opinber um leið. Mjög líklegt þykir að í áætluninni verði klausa um það að aðskilja Saab frá móðurfélaginu, annaðhvort með því að selja, eða gera fyrirtækið sjálfstætt með ábyrgð á eigin fjármálum, framleiðslu og framtíðarstefnu. Það er nefnilega ekki vænlegt fyrir GM að biðja um ríkisstyrk til að styðja við bakið á „útlendri“ bílaframleiðslu.
Bloomberg fréttastofan greindi frá því í gær að að stjórn GM og sænskir fulltrúar frá Saab og sænsku ríkisstjórninni hefðu átt viðræður um þá kröfu GM að sænska ríkið ábyrgist 600 milljón dollara lán til Saab hjá Evrópska fjárfestingabankanum. Lánið eigi að nota til að gera fyrirtækið söluvænlegra. Það á að gera m.a. með því að flytja framleiðsluna á nýja Saab 9-5- bílnum frá Opel í Rüsselsheim í Þýskalandi til Trollhättan. Einnig eigi að nota þá til að flytja framleiðsluna á 9-3 blæjubílnum frá Austurríki til Trollhättan og loks að styðja við bakið á markaðssetningu nýju 9-5 och 9-4X gerðanna á helfrosnum bílamarkaði bæði austan- og vestanhafs.