GM kúvendir og hættir við að selja Opel

Segja má að General Motors hafi tekið handbremsubeygju í  málefnum Opel og Vauxhall þegar tilkynnt var í gær að hætt hefði verið við að selja fyrirtækin. Kanadíska íhluta- og bílaframleiðslufyrirtækið Magna ásamt hinum rússneska Sberbank, var tilbúið að kaupa 55 prósent hlut. Salan var þýskum stjórnvöldum að skapi og hugðust þau halda áfram að styrkja Opel á ýmsan máta gegn því að störfum fækkaði lítið sem ekkert.

Þegar GM forstjórinn Fritz Henderson tilkynnti um að hætt væri við að selja Opel sagði hann að menn væru nú loks dottnir ofan á bestu lausnina sem væri að selja ekki en endurskipuleggja þess í stað GM-Europe. Evrópskir fjölmiðlar segja að sú endurskipulagning geti þýtt að fimmti hver starfsmaður missi starfið. En einmitt fólksfækkunin er sá dropi sem fyllti mælinn hjá þýskum stjórnvöldum sem sögðust í gær ætla að endurkrefja GM af fullu afli um hverja einustu evru sem veitt hefur verið til Opel í lán og styrki að undanförnu. Sú upphæð nemur um 1,5 milljörðum evra.

http://www.fib.is/myndir/Fritz-henderson-gm.jpg
Fritz Henderson forstjóri GM.

 Tilkynningin um að hætt væri við söluna kom fram eftir stjórnarfund hjá GM á þriðjudagskvöld sl. Hún kom í raun eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þýska ríkisstjórnin vissi ekkert annað en að söluferlið væri ennþá í gangi og ætti að ljúka því hið fyrsta enda hefur salan verið mikið áhugamál Angelu Merkel kanslara. Talsmaður hennar sagði eftir sérstakan ríkisstjórnarfund um  málið í gær að þýska ríkisstjórnin væri alfarið á móti þessum nýju fyrirætlunum GM og nýjustu endurskipulagningarhugmyndum Bandaríkjamannanna.

 Alls starfa um 50 þúsund manns hjá GM-Europe. Um helmingur þeirra eru starfsmenn Opel í Þýskalandi. Félög starfsmanna á Spáni og í Bretlandi höfðu samþykkt tiltekna fækkun starfa í tengslum við kaup Magna á meirihluta í Opel/Vauxhall, en nú er það samkomulag í uppnámi. Búist er við verkföllum og mótmælaaðgerðum næstu daga og vikur í kjölfar ákvörðunar stjórnar GM. 

 Ef reynt er að ráða í ástæður þessarar ákvörðunar stjórnar GM, þá vegur það áreiðanlega nokkuð þungt að vinsældir Opel/Vauxhall bíla hafa verið að aukast undanfarna mánuði. Bílarnir þykja traustari og endingarbetri en áður og nýi Opel/Vauxhall fólksbíllinn í efri milliflokki;  Insignia, þykir afar vel heppnaður og er metsölubíll í Evrópu. Þá er komin á markað ný kynslóð Opel Astra sem sömuleiðis þykir vel heppnaður bíll og líklegur til að verða ekki minni metsölubíll. Þá er væntanlegur á næsta ári nýi rafbíllinn Chevrolet Volt sem ætlunin er að framleiða hjá Opel undir nafninu Opel Ampera. Miklar vonir eru bundnar við þann bíl og ekki er því ólíklegt að stjórn GM vilji hafa fulla stjórn á framleiðslunni þegar þar að kemur.