GM leitar nýs kaupanda að Hummer
Reuters fréttastofan greinir frá því að stjórnendur General Motors hafi sett sig í samband við aðila sem áður höfðu sýnt áhuga á að eignast Hummer merkið nú þegar sala á því til Kínverska fyrirtækisins Sichuan Tengzhong Heavy Industrial Machinery er komin í uppnám.
Í það minnsta fjögur önnur kínversk fyrirtæki hafa áður sýnt Hummer áhuga og nú freista GM-menn þess að vekja upp áhuga þeirra á ný. Engin nöfn eru nefnd í fréttinni en tvö þeirra munu hafa á sínum tíma viljað kaupa framleiðslutæki og tól Hummerverksmiðjunnar í Shreverport í Louisiana. Hin tvö vildu hinsvegar kaupa sjálft vörumerkið
Kínverskur markaðsfræðingur segir við Reuters að ekki sé líklegt að nokkur kínverskur bílaframleiðandi hafi áhuga á að framleiða bíl eins og Hummer. Hins vegar gæti verið um að ræða áhuga hjá fyrirtækjum sem vilja skapa sér innkomu á bílamarkaðinn.